Engin alvarleg slys urðu á fólki eftir að tvær rútur með 38 manns fuku út af veginum við Hellisheiði í morgun en þetta staðfestir vakthafandi varðstjóri hjá slökkviliðinu í samtali við Fréttablaðið. Töluverð hálka er á veginum og hefur honum nú verið lokað.

„Þær bara fuku út af í sömu vindhviðunni virðist vera, önnur rútan var minni og hún lagðist á hliðina en hin rútan var stærri og endaði á hjólunum utan vegar,“ segir varðstjórinn en mannskapur frá Selfossi, Hveragerði og höfuðborgarsvæðinu var kallaður út og voru björgunaraðilar fljótir á vettvang.

Enginn á spítala enn sem komið er

Í kjölfarið var haft samband við Hellisheiðavirkjun og óskað eftir að fá að nýta húsnæðið undir mannskapinn. „Þeir voru fljótir að opna það, nú er búið að flytja allt fólkið úr rútunum í Hellisheiðavirkjun og verið að hlúa að þeim þar.“

„Það hefur ekki verið neinn fluttur á spítala enn þá en það gætu verið einhverjir sem þyrftu að fá aðhlynningu vegna einhverra eymsla,“ segir vaktstjórinn en flestir þeirra eru erlendir ferðamenn.

„Þetta gekk bara mjög hratt og vel fyrir sig og mikil aðstoð komin á staðinn mjög fljótt.“