Tvær nýjar kærur á hendur meðhönlaranum Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni, vegna meintra kynferðisbrota, eru til rannsóknar hjá lögreglu. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Jóhannes var nýverið dæmdur í sex ára fangelsi í Landsrétti fyrir fyrir að nauðga fjórum konum. Með dómi Landsréttar var refsing Jóhannesar þyngd um eitt ár en hann fékk fimm ára dóm í héraði.

Þá er ákæra vegna meintrar fimmtu nauðgunar Jóhannesar til meðferðar í Héraðsdómi Reykjaness og mun aðalmeðferð þess máls fara fram eftir áramót. Athygli hefur vakið að þinghaldið í málinu verður opið.

Jóhannes Tryggvi hafði farið fram á að þing­hald yrði lokað en konan, sem kærði hann fyrir að brjóta á sér kyn­ferðis­lega, krafðist þess ekki.

Rannsókn á málum Jóhannesar hófst fyrir þremur árum þegar á annan tug kvenna kærðu hann fyrir kynferðisbrot.

Verjandi Jóhannesar, Steinbergur Finnbogason, hélt því þá fram að þáverandi réttargæslumaður kærendanna hefði auglýst eftir brotaþolum í málinu.

Aðspurður segist Steinbergur ekki hafa séð nýjar kærur gegn umbjóðanda sínum, en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins á lögregla enn eftir að taka skýrslur vegna þeirra.