Systurnar Victoria Myrset, 12 ára, og Bene­dicte Myrset, 18 ára, létust eftir að hafa orðið fyrir eldingu á sunnu­dag á fjallinu Melshorn­et á Hareid í Mæri og Raums­dal í Noregi. Þriðja systirin slasaðist og var hún lögð inn á spítala í Bergen.

Systurnar eru frá Osló en eiga rætur að rekja til Hareid og voru þar í fríi. Mels­horn­et fjallið liggur 668 metra yfir sjávar­máli og er vin­sæll á­fanga­staður fyrir ferða­menn. Systurnar voru nærri fjall­stoppnum þegar at­vikið átti sér stað.

Bæjar­stjóri Hareid, Bernt Bran­dal, lýsir at­burðinum sem miklum harm­leik í sam­tali við NRK.

„Þær voru hérna í fríi og eru með tengingu við svæðið. Svona er sér­stak­lega erfitt þegar það eru börn í spilinu,“ segir Bernt.

Hild­e Ag­len, hrepp­stjóri í Ul­stein-Hareid, segir að lög­regla hafi lokið rann­sókn sinni í málinu en sam­kvæmt upp­lýsingum lög­reglu voru engin utan­að­komandi vitni að slysinu.

„Þetta er ekki lög­reglu­mál, allri vinnu var lokið í gær með á­herslu á að skoða að­stæður á vett­vangi, huga að að­stand­endum og veita þeim á­falla­hjálp,“ segir Ag­len í sam­tal við NRK.

Lög­reglu var til­kynnt um at­vikið rétt eftir klukkan 5 að kvöldi sunnu­dags. Stormur hafði geisað um svæðið með miklum þrumum og eldingum. Þriðja systirin hafði hringt í neyðar­línuna og voru hún og hinar látnu sóttar með sjúkra­þyrlu.