Stefnt er á að tvær milljónir Svía verði bólusettir fyrir kórónuveirunni á fyrsta ársfjórðungi 2021.

„Þetta verður skipulagsleg áskorun fyrir okkur sem þjóð en samfélagið hefur góða innviði og saman tökum við á þessu. Hverjum og einum einstaklingi ber skylda til að hjálpa til við að draga úr útbreiðslu veirunnar," sagði forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, um dreifingu bóluefnis á blaðamannafundi á föstudag.

Hann tilkynnti einnig að bóluefni gegn kórónuveriunni yrði ókeypis fyrir alla.

Lyfjafyrirtækið Moderna mun að mestu sjá Svíþjóð fyrir bóluefni að sögn forsætisráðherra.

Ríkisstjórnin mun verja 300 milljónum sænskra króna, jafnvirði um 4,4 milljarða íslenskra króna, til sveitarfélaga í landinu svo þau geti búið sig undir fjöldabólusetningar á næsta ári.

Fólk í áhættuhóp og heilbrigðisstarfsmenn munu hafa forgang að bóluefninu samkvæmt Löfven.

Alls eru um 2,5 milljónir í áhættuhóp þar í landi og því margir í forgangsröðuninni.

„Þetta þýðir að við verðum að forgangsraða innan forgangsröðunarinnar , segir Richard Bergström sem hefur umsjón með dreifingu bóluefnis í Svíþjóð í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT News.

Andres Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar tók í svipaðan streng og í útvarpsviðtali í morgun. Hann sagði að viðkvæmustu hóparnir yrðu í forgangi þegar bóluefni kemur til landsins.

Svíþjóð er eitt þeirra landa í heiminum þar sem flest kórónuveirusmit hafa greinst. 35 ný dauðsföll voru tilkynnt í landinu í gær en alls hafa rúmlega sjö þúsund manns látið lífið af völdum Covid-19 þar í landi.