Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin, WHO, hefur varað við því að heildar­fjöldi dauðs­falla á heims­vísu vegna CO­VID-19 sjúk­dómsins gæti tvö­faldast áður en að búið verður að vinna að þróun bólu­efnis og það tekið í notkun.

Þetta kom fram á blaðamannafundi WHO fór fram fyrr í dag þar sem farið var yfir stöðuna en þar var einnig varað við því að fjöldinn geti aukist enn frekar ef þjóðir grípa ekki til að­gerða til að hefta út­breiðslu veirunnar.

Alls hafa nú rúm­lega 32 milljón til­felli kóróna­veiru­smits verið stað­fest á heims­vísu og hafa hátt í milljón and­lát verið skráð. Sam­kvæmt spá WHO má því búast við að allt að tvær milljónir manns gætu látist áður en bólu­efni fer í notkun. „Það er ekki að­eins mögu­legt, heldur því miður mjög lík­legt,“ sagði Mike Ryan, yfir­maður neyðar­að­gerða hjá stofnuninni, á blaða­manna­fundi í dag.

Líkt og áður hefur komið fram eru nú mörg smit að greinast meðal unga fólksins, ekki síst hér á landi, en Ryan sagði að ekki væri hægt að kenna unga fólkinu um þá stöðu sem nú er komin upp heldur væri söku­dólgurinn frekar innan­húss sam­komur meðal fólks frá öllum aldurs­hópum.

Vinna saman að fjármögnun og dreifingu bóluefnis

Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sagði í ávarpi sínu fyrr í dag að búist væri við að fyrir lok næsta árs verði hægt að úthluta tveimur milljörðum skammta af bóluefni.

Fjölmargar þjóðir um allan heim taka nú þátt í samstarfsverkefni stofnunarinnar um fjármögnun og dreifingu bóluefnis, COVAX, en talið er að bóluefni verði sennilega tilbúið á næsta ári. Alls taka 159 lönd þátt í verkefninu og er Ísland þar á meðal. Búist er við því að 34 lönd bætist síðan í hópinn á næstunni.

Athygli vekur þó að hvorki Bandaríkin né Kína hafa tilkynnt þátttöku í verkefninu þrátt fyrir að vera stærstu ríki heims en Kína er enn í viðræðum vegna málsins, að því er kemur fram í frétt Reuters. Ghebreysus sagði mikilvægt að ef bóluefnið á að bera árangur þurfi þau að standa til boða fyrir alla í öllum löndum.

Vara við töfralausn

Þrátt fyrir að ríki víðs vegar um heim vinna nú að þróun bólu­efnis hefur Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin varað við því að fólk bindi of miklar vonir við að bólu­efnið tákni enda­lok far­aldursins og í­trekað mikil­vægi ein­stak­lings­bundna sótt­varna.

„Það er engin töfra­lausn til staðar að svo stöddu og það verður kannski aldrei,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfir­maður Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunarinnar, í byrjun ágúst. „Skila­boðin til fólksins og ríkis­stjórna eru ein­föld: gerið allt,“ sagði Ghebreyesus enn fremur en stofnunin hefur varað við því að far­aldurinn verði lang­dreginn.