Tilkynnt var um tvær aðskildar líkamsárásir í miðbænum í nótt. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en sú fyrri átti sér stað rétt fyrir klukkan fjögur í morgun.

Voru þá árásaraðilar farnir af vettvangi en brotaþola var ekið á bráðamóttöku. Sú seinni átti sér stað rétt eftir fimm um morguninn en þá náðist af hafa hendur í hári árásaraðila og hann vistaður í fangageymslu. Brotaþoli hlaut talsverða áverka í andliti eftir ítrekuð höfuðhögg og var ekið á bráðamóttöku.

Þá var ökumaður bifreiðar handtekinn í hverfi 103 grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Ökumaðurinn var aðeins 16 ára og hefur því ekki öðlast ökuréttindi. Málið var unnið með aðkomu móður og tilkynningu til Barnaverndar.

Rétt fyrir hálf þrjú var svo tilkynnt um umferðaróhapp á Elliðavatnsvegi, hverfi 210. Ökumaður bifreiðar missir stjórn á bifreiðinni og ekur út af veginum.

Bifreiðin hafnaði töluvert utan vegar og var mikið skemmd eftir óhappið. Hafði bifreiðin meðal annars ekið yfir stórt grjót og endaði í runna. Tveir voru í bílnum en ekki voru neinir skráðir áverkar.

Í Hóla- og Fellahverfi var svo tilkynnt um líkamsárás. Fjölskyldufaðir sem var ásamt börnum sínum á veitingastað að kaupa mat er aðili ræðst á hann að tilefnislausu.

Árásaraðilinn var í annarlegu ástandi og var hann handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Ekki voru neinir áverkar skráðir.