Tvær ís­lenskar konur eru mjög al­var­lega slasaðar á Tenerife eftir að pálma­tré féll skyndi­lega á þær síðasta sunnu­dag. Þær voru staddar á Tenerife í fríi ásamt þremur öðrum vinkonum sínum.

Önnur þeirra sem er al­var­lega slösuð er í að­gerð núna og hin fer í að­gerð á morgun. Hinar þrjár sem voru í hópnum koma heim á morgun með flugi. Þær eru allar slasaðar og í tauga­á­falli.

Eigin­maður einnar konunnar segir í sam­tali við Frétta­blaðið að fjöl­skyldur kvennanna sem eru al­var­lega slasaðar séu á leið út og það sé ó­víst hve­nær þær komast aftur heim.

„Þetta er sauma­klúbbur sem var á ferðalagi saman og var á labbi með fram ströndinni. Þær á­kváðu að fá sér að borða og setjast inn á stað sem er með að­stöðu úti. Svo vita þær ekkert fyrr en að tréð brotnar og fellur ofan á þær. Þetta er alveg með ó­líkindum,“ segir eigin­maðurinn sem vill ekki láta nafns síns getið. Hann í­trekar að það sé rangt það sem kemur fram í staðar­miðlum um að þær hafi verið á labbi.

Gátu ekki látið vita af sér

Hann segir að á sama tíma og þetta á sér stað þá komi ein­hver ó­prúttinn ná­ungi og stelur síma frá þremur þeirra.

„Þær gátu því ekki látið vita af sér. Þær þurftu að fá lánaðan síma til að láta vita af sér.“

Hann segir að þrír Ís­lendingar hafi verið á labbi við ströndina og orðið vitni að slysinu og hafi að­stoðað við að ná trénu af þeim.

„Það var mikið verk því það var mjög þungt,“ segir hann að lokum.

Hann segir að borgara­þjónusta utan­ríkis­þjónustunnar hafi verið ræst út í gær. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Sveini H. Guð­mars­syni, hjá borgara­þjónustunni, veita þau alla þá að­stoð sem þeim er í valdi að veita á meðan konurnar eru úti. Þá segir Sveinn að ræðis­maður Ís­lands á Kanarí­eyjum sé konunum einnig innan handar.