Tvær konur létust í hákarlárás í Egyptalandi um helgina. Konurnar létust með tveggja klukkutíma millibili á litlu svæði við Sahl Hasheesh, sem er vinsæll sumardvalarstaður við Rauðahaf.

Umhverfisráðuneyti Egyptalands greinir frá þessu. Nærliggjandi ströndum hefur verið lokað vegna málsins, að minnsta kosti í þrjá daga. Þá hefur sérstök nefnd verið skipuð til að rannsaka málið.

Önnur konan var frá Rúmeníu og var á fertugsaldri, og hin var frá Austurríki og á sjötugsaldri. Þær voru ferðamenn í Egyptalandi.

Myndband af annari árásinni er nú í dreifingu, en konan sem varð fyrir henni komst úr sjónum, en lést á spítala skömmu síðar eftir að hafa misst bæði handlegg og fótlegg.

Hákarlaárásir á svæðinu þykja mjög sjaldgæfar við Rauðahaf. Þrátt fyrir það hafa hákarlaárásir áður valdið dauðsföllum við egypska strönd við rauða hafið. Þýskir túristar létust þar árin 2010 og 2015 og tékkneskur túristi árið 2018.