Tvær konur sem voru á göngu um Esjuna náðu naum­lega að forða sér undan stórri skriðu sem féll við göngu­leið þeirra í morgun. Önnur konan hlaut smá­vægi­leg meiðsl eftir grjót­hrunið. Þetta kemur fram í til­kynningu frá lög­reglunni.

Á ellefta tímanum í morgun varð göngu­fólk í Esjunni vart við miklar drunur og grjót­hrun í fjallinu. ,,Stór grjót féllu úr kletta­beltinu austan við Þver­fells­hornið og beint yfir göngu­stíginn," segir í til­kynningu lög­reglu. Konurnar voru því heppnar að ekki fór verr.

Varað við lausu grjóti

Skriðan féll á göngu­leiðina sem er hægra megin, eða austar í Esjunni, austan við Þver­fells­horn, frekar ofar­lega ofan við Mó­gils­á.

Fólk sem hyggur á úti­vist á Esjunni ætti að hafa sér­stakan vara á sér og fara gæti­lega því það gæti enn verið laust grjót á svæðinu.