Tvær konur hafa leitað til lögreglu vegna meints ofbeldis af hálfu Sölva Tryggvasonar fjölmiðlamanns. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem lögmaðurinn Kristrún Elsa Harðardóttir, sendi Fréttablaðinu, að beiðni kvennana.

„Önnur konan hefur kært Sölva fyrir líkamsárás. Hún kveður atvikið hafa átt sér stað á heimili hennar hinn 14. mars síðastliðinn. Lögregla kom á vettvang. Farið var með Sölva á lögreglustöð og skýrsla tekin af honum þar. Síðar um kvöldið var tekin skýrsla af umbjóðanda mínum á heimili hennar,“ segir í yfirlýsingu Kristrúnar.

Önnur kona leitaði til lögmanns í dag

Hún segir aðra konu hafa leitað til sín í dag, eftir að hafa fylgst með fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga.

„Hún kveðst hafa orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu Sölva á heimili hans hinn 22. júní 2020 og kveðst loks nú hafa hugrekki til að kæra brotið til lögreglu. Beiðni um skýrslutöku til að leggja fram kæru hefur þegar verið send lögreglu,“ segir í yfirlýsingunni.

Konan kveðst hafa kynnst Sölva á Tinder og sagt honum að hún væri með reikning á Onlyfans.

„Hann hafi þá boðist til að vera með henni í myndbandi án þess að sæist í andlit hans en hún hafi þá sagt honum að hún ynni eingöngu með einstaklingum sem hún þekkir og treystir. Í framhaldi kveður hún þau hafa ákveðið að hittast á heimili Sölva til að kynnast og spjalla. Sú heimsókn endaði að hennar sögn með því að hann braut á henni kynferðislega,“ segir í yfirlýsingu Kristrúnar.

Kristrún segir umbjóðendur sína kjósa að koma ekki fram undir nafni. Um þjóðþekktan mann sé að ræða og þær vilji ekki beina athyglinni fjölmiðla að sinni persónu, en telji hins vegar samfélagslega skyldu sína að leiða sannleikann í ljós.

Veit ekki hvernig málið rataði í fjölmiðla

Með yfirlýsingu lögmannsins fylgir einnig frásögn annarrar konunnar af samskiptum sínum við Sölva, þar sem hún lýsir hinu meinta ofbeldi sem hún kveður Sölva hafa beitt sig og lögmaður hennar vísar til í yfirlýsingu. Konan kveðst ekki vita hvaðan málið hafi ratað í fjölmiðla en það sé ekki frá henni komið. Hún sé ekki vændiskona og atvik það sem hún hefur kært til lögreglu hafi ekki átt sér stað fyrir tveimur vikum, heldur þann 14. mars síðastliðinn.

Hún kveðst ekki hafa ætlað sér að stíga fram opinberlega en hafi fundið sig tilknúna, með aðstoð lögmanns síns, að leiðrétta rangfærslur sem fram hafi komið í hlaðvarpsþætti Sölva í gær.

Sögusagnir um meint ofbeldi Sölva Tryggvasonar fóru á flug á samfélagsmiðlum um síðustu helgi og þeirri sögu meðal annars dreift að Sölvi hefði beitt vændiskonu ofbeldi fyrir tveimur vikum.

Sölvi sagði frá því í hlaðvarpsþætti sínum í gær að hann hafi sjálfur leitað til lögreglu fyrir sex eða sjö vikum. „Ég man ekki hvort það sé fyrir er sex eða sjö vikum síðan, þá leitaði ég til lögreglu af því að það var manneskja sem hótaði að rústa mannorðinu mínu.“

Frásögn konunnar sem send var Fréttablaðinu ber með sér að kæran sem lögð hefur fram varðar umræddan dag sem Sölvi vísar til en ljóst er að þeim ber ekki saman um málsatvik.