Héraðsdómur Reykjaness felldi í dag dóma yfir tveimur konum fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot. Ekki er vitað til þess að mál þeirra tengist, en þau eru mjög svipuð. Báðar konur voru teknar við innflutning á um það bil kílói af kókaíni til Íslands, frá tveimur mismunandi evrópuborgum í apríl á þessu ári.

Fram kemur að báðar konurnar eru af erlendu bergi brotnar og þær játuðu báðar brot sín skýlaust, en báðar hlutu þær fimmtán mánaða fangelsisdóm.

Fyrra dæmið varðaði innflutning sem átti sér stað þann 5. apríl frá Alicante. Efnin voru falin í ferðatösku, en um var að ræða 996,22 grömm af kókaíni, en styrkleiki þeirra var 82 prósent.

Seinna dæmið átti sér stað þann 25. apríl og varðaði innflutning á 1.091,18 grömmum af kókaíni frá París. Í dómnum kemur fram að efnin hafi verið falin innvortis og að styrkleiki þeirra hafi verið 65 til 73 prósent.

Líkt og áður segir hlutu báðar konurnar báðar fimmtán mánaða fangelsisdóm fyrir brot sín. Þá voru þær báðar dæmdar til að greiða sakarkostnað, sem í báðum málum var rúmlega 1,5 milljón krónur.