Tveir erlendir sérfræðingar í bráðalækningum hafa verið ráðnir til starfa á bráðamóttöku Landspítalans frá og með deginum í dag.

Ráðningarnar eru meðal þeirra úrræða sem viðbragðsteymi bráðaþjónustunnar hefur gripið til vegna stöðunnar á bráðamóttöku.

Á vef Stjórnarráðsins er greint frá því að ýmsum mikilvægum verkefnum til skamms tíma og lengri hafi verið ýtt úr vör.

Fækka komum á bráðamóttöku

Fjarþjónustu lyflækninga hefur verið komið á fót á Landspítalanum sem til að byrja með verður opin frá átta á morgnana til níu á kvöldin, alla virka daga.

Markmið þjónustunnar eru að meta hvaða farvegur henti hverjum einstakling fyrir sig og veita viðkomandi ráðgjöf. Gert er ráð fyrir að fyrirkomulagið geti fækkað komum sjúklinga á bráðamóttöku um tíu til fimmtán prósent.

Már Kristjánsson, forstöðumaður lyflækninga- og bráðaþjónustu Landspítala, segir fjarþjónustuna til þess fallna að bæta þjónustu við sjúklinga ásamt því að jafna álag á bráðamótökunni.

Efla þjónustu nærliggjandi sjúkrahúsa

Heilbrigðisstofnanir á Suðurnesjum, Suðurlandi og Akranesi í sumar fá aukinn liðstyrk en Landspítali hefur tekið að sér að lesa úr myndrannsóknum og greina eftir þörfum blóðsýni fyrir sjúkrasvið stofnananna.

Með þessum aðgerðum er talið að fækkun verði á flutningi sjúklinga á bráðamóttöku Landspítala frá nærliggjandi sjúkrahúsum.

Þá mun sérhæfð endurhæfingarþjónusta fyrir aldraða opna í Sólvangi í Hafnarfirði á vegum Sóltúns öldrunarþjónustu ehf þann 1. september næstkomandi.

Nú þegar liggur fyrir samningur um þjónustuna á milli Sóltúns og Sjúkratrygginga Íslands.

Alls geta 39 einstaklingar dvalið þar til skamms tíma á meðan endurhæfingu stendur og gert er ráð fyrir að hægt verði að veita að minnsta kosti 400 einstaklingum þessa þjónustu árlega.

Hjúkrunarheimili og endurhæfingarrými


Í september er einnig gert ráð fyrir að nýtt hjúkrunarheimili í Árborg verði opnað fyrir fjörutíu einstaklinga af höfuðborgarsvæðinu. Um svipað leyti verða 20 ný endurhæfingarrými opnuð við hjúkrunarheimilið Eir.

Þá hefur verið auglýst eftir rekstraraðila til að sinna þjónustu fyrir aldraða á Vífilsstöðum. Gert er ráð fyrir að Velferðarsvið Reykjavíkur, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Landspítali geti vísað fólki í innlögn á Vífilsstaði.