Halldóra Guðmundsdóttir, leikskólastjóri leikskólans Drafnarsteins í Vesturbænum í Reykjavík, segir vaxandi fjölmenningu hér á landi sýna sig hvað best í þeim fjölbreytileika sem finnist á leikskólanum. Tæplega fjörutíu prósent barna séu af erlendum uppruna, sem sé nýr veruleiki í leikskólastarfi. Þá telji starfsmannahópurinn níu mismunandi þjóðerni.

„Það eru mörg tungumál í gangi, bæði hjá börnunum og starfsfólki, en við höfum aldrei haft jafn mörg börn sem hafa enga íslensku á heimilinu. Í haust var því komið að því að við þurftum að taka ákvörðun um málstefnu. Hingað til hefur ekkert þurft að ræða þetta, en svo allt í einu er maður kominn með einhvern veruleika þar sem þetta þarf að ræða,“ segir Halldóra.

Af þeim sökum hafi leikskólinn tekið upp íslenska málstefnu, sem Halldóra segir að hafi verið nauðsynlegt.

„Við sáum það aðeins gerast í fyrra að börn af erlendum uppruna, sem voru kannski að baksa við íslenskuna, voru farin að leika sér á einhverju Youtube-tungumáli. Þetta fannst okkur mjög áhugavert því við erum bæði sögu- og þjóðsöguskóli og erum mjög upptekin af málþroska og málörvun og vinnum okkar starf í gegnum íslenskar þjóðsögur,“ segir Halldóra.

Slíkt sé gríðarleg áskorun þar sem börnum, sem ekki hafa íslensku að móðurmáli, fjölgi með hverju árinu.

„Ég held að þetta sé bara þróunin á Íslandi yfir höfuð. Fleiri þjóðir koma og núna finnur maður það í samfélaginu að við erum til dæmis að fá fjölda flóttamanna til landsins, bæði frá Úkraínu og Venesúela,“ segir Halldóra.

Meðal þeirra tungumála sem börnin hafa að móðurmáli eru enska, finnska, spænska, pólska, arabíska, farsi, lettneska, danska, telúgú, gújaratí og hebreska, svo fáein séu nefnd, og segir Halldóra áhugavert að sjá hvað fjöldatitillinn breytist frá ári til árs.

Meðal þeirra tungumála sem töluð eru á Drafnarsteini eru farsi, telúgú, gújaratí og hebreska.
Fréttablaðið/Stefán

„Franska á fjöldatitilinn núna, en hún er töluð hjá flestum þeim sem eru tví- og fjöltyngd. Áður var titillinn pólska og enska, en það er gríðarlega skemmtilegt að sjá hvernig þetta breytist,“ segir Halldóra.

Að sögn Halldóru hefur innleiðing íslenskrar málstefnu á leikskólanum gengið vonum framar og segir hún börnin aðlagast vel.

„Þau eru náttúrlega ótrúlega dugleg og fljót að aðlagast. Þó að þau séu kannski ekki komin með íslenskuna þá læra þau ofsalega fljótt á dagsskipulagið. Á öllum deildum er myndrænt dagsskipulag, þannig að þau sjá á myndum hvernig dagurinn rúllar,“ segir Halldóra.

Þá fái þau börn sem hafi engan bakgrunn í íslensku bókina Ljáðu mér orð, sem Halldóra segir að sé í raun þeirra orðabók með myndum.

Þrátt fyrir að leikskólinn hvetji börnin til að tala íslensku á leikskólatíma segir Halldóra þeim alls ekki bannað að tala móðurmál sitt. Nauðsynlegt sé að hafa sveigjanleika.

„Við erum alls ekki að banna börnunum að tala annað tungumál sín á milli, heldur meira minnum við þau á að við ætlum að tala íslensku í skólanum. Koma því mjúklega til leiðar, þegar börnin eru til dæmis í leik í hóp, að tala íslensku svo allir geti verið með,“ segir Halldóra.