Fulltrúar 20 sveitarfélaga setja sig upp á móti því að lágmarksfjöldi íbúa íslenskra sveitarfélaga verði lögfestur. Þeir segja minni sveitarfélög landsins ekki geta unað við það til lengdar að brotið sé á þeim og þeirra íbúum. Kjörnir fulltrúar stærri sveitarfélaga hafi ekki lýðræðislegt umboð til að ákveða örlög minni sveitarfélaga innan Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS).

Fulltrúar sveitarfélaganna tuttugu, sem eru ýmist sveitarstjórar, oddvitar eða formenn bæjarráðs, lögðu í dag fram tillögu til landsþings SÍS sem haldið verður 18. desember næstkomandi. Þar er lagt til að þingið hafni áætlunum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um að lögfesta íbúalágmark sveitarfélaga. Fulltrúarnir styðja þó flest meginatriði í stefnu áætlunar um eflingu sveitarstjórnarstigsins og hvetja til sameiningar og stækkunar sveitarfélaga.

Af sveitarfélögunum tuttugu, sem fulltrúarnir koma frá, hafa nítján þeirra færri íbúa en þúsund. Aðeins Eyjafjarðarsveit er með rétt rúmlega þúsund íbúa en bæði oddviti og sveitarstjórnarfulltrúi sveitarfélagsins skrifa undir tillöguna. Í dag eru 39 sveitarfélög á landinu með íbúafjölda undir þúsund.

Þó sveitarfélögin styðji hugmyndina um sameiningar og stækkun sveitarfélaga setja þau sig upp á móti því að íbúalágmark verði lögfest. Þannig tapist sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga, sem sé eitt af helstu véum þeirra.

Fari gegn eðli sambandsins

Fulltrúarnir gagnrýna einnig ferlið í kringum það þegar aukalandsþing SÍS í fyrra samþykkti tillögu stjórnar um stuðning við þingsályktunartillöguna. „Tillaga stjórnar var ekki kynnt fyrr en umræður um hana hófust, það rímar raunar ekki vel við samþykktir sambandsins dags. 24. mars 2017. Því var ekkert svigrúm til að bregðast við þó gallar kynnu að vera á tillögu stjórnar. Eðlilega hlaut tillaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins góðan stuðning, en ekki var kosið um einstaka aðgerðir einungis tillöguna í heild. Eftir á að hyggja var það gölluð málsmeðferð.“

„Það fer gegn eðli sambandsins [SÍS] og samþykkta þess að kjörnir fulltrúar taki afdrifaríkar ákvarðanir sem varða einungis örlög annarra sveitarfélaga en þeirra eigin, og gegn vilja þeirra sem þær snerta. Svo var einmitt með tillögu um íbúalágmark,“ segir í tillögunni. „Því hefði verði eðlilegra að sá liður í aðgerðaáætlun hefði verið undanskilinn þegar greidd voru atkvæði um tillöguna.“

Í tillögunni er einnig tekið fram að þrátt fyrir mikla umræðu um lögfestingu íbúalágmarks undanfarið sé enn erfitt að sjá nokkur haldbær rök fyrir þúsund íbúa lágmarki. „Enda hafa komið fram sjónarmið um að eðlilegra væri að hafa markið hærra, jafnvel mikið hærra. T.d. mætti rökstyðja 8.000 íbúa mark með vísun í þjónustusvæði fatlaðra og ef horfa á til fullrar hafkvæmni í rekstri, væri kannski 20 þúsund nær lagi.“

Landafræði og dreifð byggð á landinu komi þó í veg fyrir slíkt og því sé engin ein tala sem hægt er að segja að sé „hin eina rétta um land allt“. „Þeir sem styðja 1.000 íbúa lágmark geta ekki hafnað því að lágmarkið verði síðar sett í t.d. 5.000 eða 8.000. Fyrir slíkri afstöðu eru ekki rök, eingöngu eiginhagsmunir,“ segir í tillögunni.

Sveitarfélögin segja lýðræði hér grundvallaratriði og að íbúum sé fyllilega treystandi til að taka skynsamlegar ákvarðanir í sameiningarmálum. Því sé óþarft að lögfesta íbúalágmark í sveitarfélögum. „Enda er sannarlega margt að gerast í sameiningarmálum nú um stundir og mikið farsælla að sú þróun gerist ekki undir hótun um lögþvingun.“

Fulltrúar sveitarfélaganna

Þeir sem skrifa undir tillöguna eru:

 • Fjóla V Stefánsdóttir, oddviti Grýtubakkahrepps
 • Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps
 • Björgvin Helgason, oddviti Hvalfjarðarsveitar
 • Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar
 • Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps
 • Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps
 • Jóhann F. Þórhallsson, oddviti Fljótsdalshrepps
 • Helgi Gíslason, sveitarstjóri Fljótsdalshrepps
 • Dagný Rósa Úlfarsdóttir, oddviti Skagabyggðar
 • Halldór Gunnar Ólafsson, oddviti Sveitarfélagsins Skagastrandar
 • Alexandra Jóhannesdóttir, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagastrandar
 • Aðalsteinn J. Halldórsson, oddviti Tjörneshrepps
 • Finnur Ólafsson, oddviti Kaldrananeshrepps
 • Hrefna Jóhannesdóttir, oddviti Akrahrepps
 • Axel Grettisson, oddviti Hörgársveitar
 • Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri Hörgársveitar
 • Ingimar Ingimarsson, varaoddviti Reykhólahrepps
 • Bjarnveig Guðbrandsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps
 • Árni Hjörleifsson, oddviti Skorradalshrepps
 • Pétur Davíðsson, sveitarstjórnarfulltrúi Skorradalshreppi
 • Ingibjörg Harðardóttir, sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps
 • Ása Valdís Árnadóttir, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps
 • Björg Erlingsdóttir, sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps
 • Anna Karen Úlfarsdóttir, varaoddviti Svalbarðsstrandarhrepps
 • Jón Stefánsson, oddviti Eyjafjarðarsveitar
 • Ásta Arnbjörg Pétursdottir, sveitarstjórnarfulltrúi Eyjafjarðarsveit
 • Sigurður Þór Guðmundsson, oddviti Svalbarðshrepps
 • Þorsteinn Egilsson, oddviti Langanesbyggðar
 • Jónas Egilsson, sveitarstjóri Langanesbyggðar
 • Baldur Smári Einarsson, fom. bæjarráðs Bolungarvíkur
 • Sigríður Hulda Guðbjörnssdóttir, oddviti minnihluta í bæjarstjórn Bolungarvíkur