Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að samkvæmt rannsókn þeirra á útbreiðslu Covid-19 í samfélaginu megi gera ráð fyrir því að fyrir mánuði hafi í kringum 20 prósent Íslendinga undir fertugu verið búin að greinast með Covid-19.
Þetta er meðal niðurstaða eftir fyrri skimun rannsóknar Íslenskrar erfðagreiningar sem unnin er í samráði við sóttvarnalækni. Fyrri skimun rannsóknarinnar fór fram fyrir rúmri viku síðan. Að sögn Kára er hlutfallið lægra eftir því sem aldur fólks jókst. Seinni skimun rannsóknarinnar fer fram þremur vikum eftir þá fyrstu.
„Það minnkar tiltölulega hratt þegar við erum farin yfir fertugt. Það eru mun færri í eldri aldurshópum sem hafa smitast fram að þessu,“ segir Kári en telur að líklega sé hlutfallið miklu hærra núna.
Kári segir þetta býsna mikilvægan punkt og staðfesting á því sem var að gerast í faraldrinum fyrir mánuði síðan en að núna séum við komin á annað stað og að nú séu miklu fleiri búnir að smitast.
„Við skimuðum fyrir rúmri viku síðan og síðan ætlum við að skima eftir þrjár vikur þaðan í frá. Því þegar þú ert að mæla mótefni gegn kjarnapróteinum veirunnar í þeim sem smitast þá tekur þrjár vikur frá smiti þangað til mótefnið er komið. Við erum því, eins og maður segir, dálítið á eftir,“ segir Kári.
Bólusetningin veitir góða vörn gegn smiti
Hann segir að annað sem kom í ljós í rannsókn þeirra er að bólusetningin veitir töluverða vörn gegn smiti.
„Ekki bara gegn því að fá alvarlegan sjúkdóm þegar menn smitast. Þannig bóluefnið veitir allskonar mikilvæg vörn,“ segir Kári og að hann geti ekki tjáð sig frekar um niðurstöður rannsóknarinnar. Það muni vera frekar greint frá þeim þegar seinni skimun er lokið.
Til samanburðar má geta þess að á vef Covid-19 kemur fram að alls hafi 16 prósent þjóðarinnar smitast af Covid-19.
Engin forsenda lengur fyrir því að loka fólk inni
Kári segir að honum þyki skynsamlegt, miðað við stöðuna í dag, að byrja að skipuleggja feril sem leiðir til algerrar afléttingar sóttvarnaaðgerða innanlands.
„Það er ferill sem ég held að væri skynsamlegt að hanna í samvinnu milli sóttvarnalæknis, Landspítala og annarra í íslensku samfélagi sem hafa á þessu dálítið vit. En ég held það sé engin forsenda fyrir því að halda mönnum í sóttkví eða einangrun þegar um er að ræða jafn mildan sjúkdóm og sá sjúkdómur er sem Omíkron veldur,“ segir Kári.
Hann segir Delta það sem valdi honum kvíða og að það sé enn á ferð.
„Það verður erfitt að henda reiður á því hversu víða Delta-afbrigðið hefur farið þegar við hættum að skima, sem við hljótum að hætta að gera, þegar við afléttum á þennan hátt,“ segir Kári en að það sé samt sem áður óvissa sem við ættum að búa við.
„Ég held að við glötum meira þegar við höldum svona aðgerðum áfram heldur en ef við vinnum með því,“ segir hann að lokum.