Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna ´78 segir það óboðlegt að trans fólk þurfi að bíða eins lengi og raun beri vitni eftir kynleiðréttingaraðgerðum, en alls bíða nú tuttugu og fjórir eftir aðgerð, þar af fjórir síðan 2019.
„Þetta er bara augljóslega lífsnauðsynlegar aðgerðir fyrir mjög marga. Við höfum séð einstaklinga sem eru að bíða einfaldlega verða öryrkja vegna þess að þau tapa starfsgetu út af andlegri heilsu. Þannig að ég myndi alveg segja að fyrir samfélagið, þá borgar það sig að halda fólki heilbrigðu,“ segir Álfur.
Hann segir að Samtökin ´78 séu í reglulegu samtali við heilbrigðisyfirvöld og ráðherra vegna stöðunnar, sem sé grafalvarleg.
„Við skynjum mjög vel að aðstæður á Landspítalanum séu erfiðar og það þurfi að forgangsraða, en okkur finnst eins og þessar aðgerðir ættu að vera forgangi,“ segir Álfur.
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hafa tvær kynleiðréttingaraðgerðir verið gerðar það sem af er ári og eru fleiri ekki fyrirhugaðar fyrr en á næsta ári.
Hannes Sigurjónsson, lýtalæknir, sem hefur sérhæft sig í kynleiðréttingaraðgerðum, segir fjölda slíkra aðgerða hafa minnkað talsvert undanfarin ár, þá sérstaklega síðustu tvö.
„Við vorum að gera um sex stórar aðgerðir á ári fyrir Covid og miðað við það var biðlistinn kannski ekki nema eitt og hálft til tvö ár,“ segir Hannes. Það sé þó ekki mjög langur tími samanborið við biðlista annars staðar í heimunum.
„Við erum að tala upp í þrjú, fjögur, jafnvel fimm ár. Svo kom Covid og mikil mannekla á skurðstofum Landspítalans og takturinn hefur verið tvær á ári á síðasta ári og þetta ár,“ segir Hannes.