Bandarískur maður sem kveikti skógareld í Kaliforníu sem geisaði í rúma fjóra mánuði og olli dauða tólf kondóra hefur verið dæmdur í 24 ára fangelsi.
Ivan Gomez, 31 ára, kveikti eldinn óvart í ágúst 2020 þegar hann var að rækta kannabis ólöglega í Los Padres þjóðgarðinum í Kaliforníu.
Eldurinn, sem fékk nafnið Big Sur Dolan-eldur, breiddist yfir 125 þúsund ekrur, þar á meðal friðland fyrir kondórfuglinn sem er í útrýmingarhættu, og eyðilagði fjórtán byggingar. Ekki tókst að ráða niðurlögum eldsins fyrr en á gamlársdag 2020.

Tólf fuglar í útrýmingarhættu drápust
Talið er að tólf kondórar hafi dáið í skógareldinum. Um er að ræða eina stærstu fugla í heimi en tegundin er í mikilli útrýmingarhættu og komst nærri því að verða aldauða á 9. áratug síðustu aldar.
Þá voru fjórtán slökkviliðsmenn hætt komnir er slökkviliðsstöð þeirra varð eldi að bráð og þeir neyddust til að leita skjóls í neyðarskýli. Einn varðstjóri særðist alvarlega og tveir aðrir þurftu að leggjast inn á spítala vegna brunasára og reykeitrunar.
Samkvæmt heimildum héraðssaksóknara var Gomez handtekinn af lögreglumönnum þjóðgarðsins eftir að þeir fengu ábendingu um mann sem var að kasta steinum á bíla nærri aðliggjandi þjóðvegi.
Hann er sagður hafa verið sveittur og ber að ofan með nokkra kveikjara á sér sambærilegum öðrum sem fundust nærri eldsupptökunum. Gomez játaði að hafa rekið ólöglega kannabisræktun í skóginum sem hafi orsakað eldinn.
Hann hlaut dóm í sextán ákæruliðum síðasta miðvikudag, þar á meðal fyrir íkveikju, kannabisræktun og tólf ákærur fyrir dýraníð. Gomez mun afplána refsinguna í ríkisfangelsi í Kaliforníu.