Réttar­höld hófust í dag yfir tuttugu mönnum sem taldir eru bera á­byrgð á röð skipu­lagðra hryðju­verka­á­rása í París í nóvember 2015. Réttarhöldin eru haldin í sérútbúnum dómssal og munu standa yfir í níu mánuði.

Þann 13. nóvember 2015 réðust níu á­rásar­menn frá Íslamska ríkinu á al­menna borgara í París með þeim af­leiðingum að 130 létu lífið og mörg hundruð særðust. Á­rásirnar áttu sér allar stað innan fárra mínútna og beindust að fólki á fót­bolta­leik, tón­leikum og kaffi­húsum borgarinnar.

Engin árás hefur verið jafn mann­skæð í Frakk­landi frá því í seinni heims­styrj­öldinni. Skæðasta árás hryðju­verka­mannanna var í tón­leika­húsinu Bataclan þar sem þrír mættu og skutu úr rifflum á tón­leika­gesti.

Minningarathöfn fyrir framan Bataclan, þremur árum eftir árásina.
Fréttablaðið/Getty

Sjö af á­rásar­mönnunum létu lífið í sjálfs­morðs­sprengjum, einn var drepinn af öryggis­verði í Bataclan og að­eins einn á­rásar­mannanna er enn á lífi, Salah Abdeslam. Sprengju­vestið sem hann klæddist bilaði og hann reyndi að flýja af vett­vangi.

Abdeslam hefur ekki svarað neinum spurningum rann­sóknar­manna um á­rásirnar. Hann er eini verjandinn sem er á­kærður með morð en hinir ní­tján eru á­kærðir fyrir létt­vægari hryðju­verka­brot, sam­kvæmt frétt frá AP news.

Dómarinn yfir málinu, Jean-Louis Peries, segir á­rásirnar hafa breytt lands­laginu í Evrópu og Frakk­landi til fram­búðar. Frakk­land lýsti yfir neyðar­á­standi í kjöl­fari á­rásanna sem var ekki af­numið fyrr en árið 2017. Þá voru fjöldi strangra laga tekin í gildi á þeim tíma.

Eiffel-turninn var lýstur upp í fánalitum Frakklands til minningar um þau sem létust í árásunum.
Fréttablaðið/Getty

Stjórn­völd í Frakk­landi hafa tekið sér­stakar ráð­stafanir til að verjast á­rásum á dóms­húsið á meðan á réttar­höldum stendur. Nýr dóm­salur var byggður við franska dóms­húsið Palais de Justice sem á að geta tekið rúm­lega 1800 sóknar­aðila og þrjú hundruð lög­menn í sæti.

Búist er við því að réttar­höldin vari í níu mánuði. Fyrsti mánuðurinn fer í að kynna sönnunar­gögn lög­reglu og réttar­meina­fræðinga og í októ­ber verða vitna­leiðslur. Í nóvember og desember eru frá­sagnir frá em­bættis­fólki, til dæmis þá­verandi for­seta Frakk­lands, François Holland­e.

Kona í Lille heldur á skilti sem segir Je suis Paris, Ég er París. Fólk um allan heim bar þetta slagorð eftir árásirnar til að sýna samstöðu með Parísarbúum.
Fréttablaðið/Getty