Að minnsta kosti tuttugu einstaklingar eru komnir í fjöldahjálparstöðina sem Rauði krossinn opnaði í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbraut í morgun vegna veðurs og von er á fleirum.

Þetta staðfestir Oddur Freyr Þorsteinsson, kynningar- og fjölmiðlafulltrúi hjá Rauða krossi Íslands. Þrír starfsmenn frá Reykjavík eru á leiðinni til Keflavíkur í fylgd björgunarsveita.

Oddur Freyr gerir ráð fyrir að fleiri þurfi að leita í fjöldahjálparstöðina. „Þetta virðist vera töluverður fjöldi af fólki sem er fast á Reykjanesbraut svo mér finnst sennilegt að þetta verði smá fjöldi.“

Að sögn Odds Freys er nú einnig unnið að því að opna fjöldahjálparstöð á Hellu. Aðspurður hve lengi er gert ráð fyrir að fjöldahjálparstöðin verði opin segir Oddur Freyr það eiga eftir að koma í ljós.

„Það mun bara koma í ljós, fer eftir fjölda fólks sem þarf aðstoð og hvernig gengur að koma því í hús annars staðar,“ segir Oddur Freyr og bætir við:

„Þetta eru mjög víðtækar aðgerðir sem eru í gangi í samstarfi við Landsbjörg og björgunarsveitir þannig að það verður örugglega hasar í dag. En það er allt í gangi og þetta fer örugglega allt saman farsællega.“

Greint var frá því í morgun að Reykjanesbrautinni hafi verið lokað alfarið um níuleytið en fjöldi verkefna björgunarsveitanna hefur verið gífurlegur.

Björgunarsveitir sendu snjóbíl ásamt tveimur stærri trukkum á Reykjanesbraut til að aðstoða vegfarendur sem sitja þar fastir.

Lög­reglan á Suður­nesjum hefur sent frá sér enn eina í­trekunina í morgun þar sem fólk á van­búnum bílum er beðið um að vera ekki á ferðinni og veg­far­endur beðnir um að virða lokanir.

Öllu innanlandsflugi hefur verið aflýst í dag sem og öllu morgunflugi frá Keflavík.

Gular veðurviðvaranir eru í gildi á öllu landinu og appelsínugul viðvörun er á Suðausturlandi.


Ert þú með ábendingu vegna veðursins? Sendu okkur tölvupóst á ritstjorn@frettabladid.is.