Tuttugu greindust innanlands með Covid-19 síðastliðinn sólarhring og voru níu þeirra í sóttkví við greiningu en ellefu utan sóttkvíar.

176 eru nú með virkt smit og í einangrun.

877 innanlandssýni voru tekin síðastliðinn sólarhring eða 200 fleiri en daginn áður. Þá voru 240 landamærasýni greind í gær.

Þrír farþegar greindust með Covid-19 á landamærum, einn var með virkt smit en hinir tveir bíða niðurstöðu mótefnamælingar.

42 sjúklingar eru innlagðir á sjúkrahús vegna Covid-19 og fækkar þeim um tvo á milli daga, áfram eru tveir sjúklingar á gjörgæsludeild.

528 einstaklingar eru nú í sóttkví hér á landi og fjölgar um 82 milli daga. 634 eru í skimunarsóttkví.

Nýgengi innanlandssmita síðustu fjórtán daga hækkar á milli daga og mælist nú 35,7 smit á hverja 100 þúsund íbúa.

Tillögur gætu tekið breytingum

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að merki væru um að faraldurinn væri að fara aftur af stað. Þar að auki sagði Þórólfur það vera áhyggjuefni að hlutfall tilfella sem greinist utan við sóttkví fari hækkandi og erfiðara hafi reynst að rekja smit.

Hann skilaði tillögum til heilbrigðisráðherra um áframhaldandi aðgerðir í gær. Hann sagði að þær tillögur gætu tekið breytingum ef fjöldi sýktra héldi áfram að fara upp á við, sem það gerði. Núverandi takmarkanir eru í gildi til 2. desember.

Fréttin hefur verið uppfærð.