Gera má ráð fyrir að hver Íslendingur neyti að meðaltali 20 glasa af jólagosi Ölgerðarinnar í aðdraganda jóla og fram í janúar að sögn Gunnars B. Sigurgeirssonar, aðstoðarforstjóra fyrirtækisins.

Gunnar segir að þrátt fyrir áskoranir líkt og dósaskort hafi fyrirtækinu tekist að framleiða nægt magn fyrir hátíðina. „Salan byrjaði fremur rólega en tók svo við sér um leið og kólnaði og jólin fóru að nálgast,“ segir hann.

Sykurskert útgáfa af malti og appelsíni hefur slegið í gegn að sögn Gunnars. Óbreytta útgáfan af malti standi þó alltaf fyrir sínu, en drykkurinn sem lofar „hraustlegu og góðu útliti“ kom fyrst á markað árið 1913. „Það er auðvitað einstakt að drykkjarvara lifi nánast óbreytt í á annað hundrað ár,“ segir hann.