Ellefti september 2001 er dagur sem heimsbyggðin mun eflaust seint gleyma, en þennan dag urðu Bandaríkin fyrir einni mannskæðustu hryðjuverkaárás sögunnar.

Íbúar New York bjuggust eflaust ekki við því sem koma skyldi þegar þeir vöknuðu um morguninn þennan örlagaríka dag og afleiðingunum sem áttu eftir að fylgja en heimurinn átti eftir að breytast til frambúðar.

Snemma um morguninn höfðu nítján hryðjuverkamenn úr röðum Al-Kaída byrjað að skrá sig inn á flugvellina í Boston, New Jersey og Washington-borg í fjórar mismunandi flugvélar með eitt markmið, að ráðast á Bandaríkin og allt sem þau stóðu fyrir, með farþegaflugvélarnar að vopni.

Komust fram hjá öllum öryggisráðstöfunum

Fyrsti hópurinn, þeir Mohamed Atta, Abdul Aziz al Omari, Satam al Suqami, Wail al Shehri, og Waleed al Shehri, voru á leiðinni í flug með American Airlines 11 sem átti að leggja af stað klukkan 7:45 frá Logan-flugvellinum í Boston.

Næsti hópurinn, Marwan al Shehhi, Fayez Banihammad, Mohand al Shehri, Ahmed al Ghamdi, og Hamza al Ghamdi, voru einnig staddir á Logan-flugvellinum en þeir voru á leið í flug með United Airlines 175, sem átti að leggja af stað klukkan 7:45.

Í Washington-borg var enn annar hópur, þeir Khalid al Mihdhar, Majed Moqed Hani Hanjour, Nawaf al Hazmi og Salem al Hazmi, staddir á Dulles-flugvellinum á leið í flug með American Airlines 77, sem átti að leggja af stað klukkan 8:10.

Síðasti hópurinn var síðan staddur á Newark-flugvellinum í New Jersey en ólíkt hinum hópunum samanstóð þessi hópur aðeins af fjórum mönnum, þeim, Saeed al Ghamdi, Ahmed al Nami, Ahmad al Haznawi, og Ziad Jarrah. Voru þeir á leið í flug með United Airlines 93, sem átti að leggja af stað klukkan 8:00.

Nítján hryðjuverkamenn úr röðum Al-Kaída rændu fjórum farþegaflugvélum þann 11. september.

Nokkrir úr hópunum voru stöðvaðir eftir að tölvukerfið CAPPS (e. Computer Assisted Passenger Prescreening System) merkti þá sem farþega sem þyrftu að undirgangast strangari öryggisleit. Þá voru nokkrir þeirra stöðvaðir við málmleitartæki.

Allir komust þeir þó að lokum í gegn og voru komnir um borð í sín flug fyrir klukkan átta um morguninn. Engir starfsmenn sem unnu við öryggisleit á völlunum minntust þess að hafa séð neitt grunsamlegt eða óvanalegt.

Í skýrslu nefndar sem var skipuð til að fjalla um árásirnar 11. september segir að mennirnir nítján hafi allir farið um borð í vélarnar fjórar með það markmið að ræna vélunum og gera þær að „stórum stýriflaugum fylltar af allt að 11.400 gallonum af þotueldsneyti.“

„Fyrir klukkan 8:00 þriðjudagsmorguninn 11. september 2001 höfðu þeir sigrast á öllum þeim ráðstöfunum sem öryggiskerfið í kringum bandarískt almenningsflug var með til staðar til að koma í veg fyrir flugrán,“ segir í skýrslunni.

Fljótlega eftir flugtak náðu hryðjuverkamennirnir öllum fjórum vélunum á sitt vald. Stefnan var þá sett á Tvíburaturnana í World Trade Center í New York og Pentagon, aðalbækistöðvar bandaríska varnarmálaráðuneytisins í Virginíu.

„Við erum með nokkrar vélar“

Að því er fram kemur í skýrslu nefndar sem var skipuð til að fjalla um árásirnar ellefta september og kom út árið 2004, var flugmálayfirvöldum skömmu fyrir klukkan hálf níu ljóst að mögulega væri hryðjuverkaárás í aðsigi. Viðvörunarbjöllur voru farnar að klingja hjá flugumferðarstjóra Boston Central, þegar vél American Airlines 11 fylgdi ekki leiðbeiningum skömmu eftir flugtak og slökkt var á ratsjársvara vélarinnar.

Klukkan 8.24 bárust flugumferðarstjórn eftirfarandi skilaboð frá vélinni, eftir nokkrar tilraunir til að ná sambandi við þau: „Við erum með nokkrar vélar. Hafið bara hljótt, og það verður í lagi með ykkur. Við erum að snúa aftur á flugvöllinn.“

Í upphafi var óljóst nákvæmlega hvað var sagt í byrjun en skömmu síðar var staðfest að skilaboðin frá hryðjuverkamönnunum væru þau að vélin væri ekki sú eina sem þau höfðu náð á sitt vald. Í heildina voru 92 í vélinni þegar hún tók á loft, tveir flugmenn, níu flugþjónar, og hryðjuverkamennirnir þrír.

Lítið er vitað um nákvæmlega hvað átti sér stað um borð vélarinnar þegar hryðjuverkamennirnir tóku yfir en það sem er vitað kom að mestu leyti frá flugþjónum Betty Ong og Madeline “Amy” Sweeney sem náðu sambandi við flugþjónustuna í Norður-Karólínu og í Boston.

Tvíburaturnarnir voru fyrsta skotmark hryðjuverkamannanna.
Fréttablaðið/Getty

Ong náði sambandi við flugþjónustuna í Norður-Karólínu um fimm mínútum eftir að hryðjuverkamennirnir tóku við þar sem hún sagðist telja að vélinni hafi verið rænt. Hún greindi frá því að þau gætu ekki náð sambandi við flugmennina og að tveir flugþjónar hafi verið stungnir auk þess sem hún sagði að ræningjarnir væru líklega að nota piparúða eða annað slíkt þar sem þau gátu ekki andað.

Um svipað leiti og flugumferðarstjórn fékk skilaboðin frá vélinni náði Sweeney sambandi við flugþjónustuna í Boston þar sem hún greindi einnig frá því að hryðjuverkamennirnir höfðu sagst vera með sprengju um borð. Í kringum klukkan 8:44 tók Sweeney síðan eftir því að vélin væri á leiðinni niður.

„Það er eitthvað að. Við erum á hraðri niðurleið,“ sagði Sweeney í samtalinu. „Við erum að fljúga lágt. Við erum að fljúga mjög, mjög lágt. Við erum að fljúga allt of lágt ... Guð minn góður við erum allt of lágt niðri.“

Samtalinu lauk skömmu síðar. Klukkan 8.46 fylgdist heimsbyggðin með í skelfingu þegar vél American Airlines 11, með 92 manneskjur um borð, flaug inn í norðurturn Tvíburaturnanna.

Fólk fylltist skelfingu þegar vélin flaug á norðurturninn. Sumir köstuðu sér út um glugga á meðan aðrir héngu fram af þeim til að reyna að komast burt.
Fréttablaðið/Getty

„Þetta er að verða slæmt“

Um svipað leiti og hryðjuverkamennirnir tóku yfir vél American 11 var vél United Airlines 175 að taka á loft og klukkan 8:42 sendi vélin frá sér þau skilaboð að þau hafi heyrt „grunsamleg skilaboð“ frá annarri vél. Það reyndust vera síðustu skilaboðin sem vélin sendi frá sér en talið er að hryðjuverkamennirnir hafi tekið yfir skömmu síðar.

Helstu upplýsingar um það hvað átti sér stað um borð vélarinnar komu út frá símtölum frá farþegum og flugþjónum sem voru aftast í vélinni. Samkvæmt þeim beittu hryðjuverkamennirnir í vél United 175 sömu brögðum og í American 11, þar sem þeir beittu hnífum, táragasi eða öðru slíku, og hótun um sprengju. Þá höfðu hryðjuverkamennirnir einnig drepið báða flugmennina.

Meðal farþega sem náðu að hringja frá vélinni voru Peter Hanson sem hringdi í föður sinn sem lét síðan lögreglu vita. Annar farþegi, Brian David Sweeney reyndi að hringja í eiginkonu sína og skildi eftir talhólfsskilaboð þar sem hann sagði frá því að vélinni hafi verið rænt og að farþegarnir voru að ræða það að ráðast inn í flugklefann þar sem hryðjuverkamennirnir voru.

Klukkan 9:00 fékk faðir Peter Hansen annað símtal. „Þetta er að verða slæmt pabbi,“ sagði Hanson meðal annars í símtalinu þegar vélin var á niðurleið en hann sagðist halda að vélin væri að stefna á byggingu í Chicago eða annað slíkt. „Ekki hafa áhyggjur pabbi ... Ef það gerist þá verður það mjög fljótt ... Guð minn góður, guð minn góður.“

Klukkan 9:03, sautján mínútum eftir að American 11 flaug inn í norðurturninn, flaug United 175 inn í suðurturninn og var þá alveg ljóst að verið væri að ráðast á Bandaríkin. 65 manns voru um borð vélarinnar, þar af tveir flugmenn, sjö flugþjónar og 51 farþegi, auk hryðjuverkamannanna fimm.

Tveimur mínútum síðar heyrði George W. Bush, þáverandi Bandaríkjaforseti, af árásinni en hann var þá staddur í grunnskóla í Flórída. Fjöldi fjölmiðlamanna voru á staðnum þegar fréttirnar voru að berast og fylltust skelfingu en martröðin var ekki búin enn.

102 mínútur liðu frá fyrstu árásinni þar til að báðir turnarnir hrundu.
Fréttablaðið/Getty

Pentagon seinna skotmarkið

Skömmu eftir 8:50 náði þriðji hópur hryðjuverkamanna stjórn í vél American Airlines 77 en samkvæmt upplýsingum sem bárust frá farþegum og flugþjónum úr vélinni beittu þeir svipuðum brögðum og hóparnir í American 11 og United 175. Ólíkt þeim virðist þó vera sem svo að hópurinn í American 77 hafi ekki talað um að sprengja væri um borð vélarinnar eða notað táragas.

Um klukkan 9:00 komust flugmálayfirvöld að því að það væri eitthvað að og var í upphafi talið að það hafi verið American 77 sem hafði lent á suðurturninum. Fljótlega þar eftir gáfu American Airlines út þá skipun að kyrrsetja allar vélar sem ekki voru farnar á loft nú þegar.

Einn farþegi vélarinnar var Barbara Olson, eiginkona varadómsmálaráðherra Bandaríkjanna, og komst hún að því í frá honum í gegnum síma að tvær flugvélar hafi flogið inn í Tvíburaturnana skömmu áður.

Klukkan 9.37 flaug American 77, með 64 um borð, þar af tvo flugmenn og fjóra flugþjóna, á Pentagon, bækistöðvar varnarmálaráðuneytisins í Arlington.

Bækistöðvar bandaríska varnarmálaráðuneytisins voru seinna skotmark hryðjuverkamannanna.
Fréttablaðið/Getty

Uppreisn farþega United 93

United Airlines 93 var síðasta vélin til að taka á loft af þeim fjórum vélum sem hryðjuverkamennirnir rændu. Vélin átti að fara á loft klukkan 8:00 en tafir urðu á brottför þannig vélin fór ekki fyrr en klukkan 8:42, fjórum mínútum áður en fyrsta vélin flaug inn í norðurturninn.

Eftir að vélin var komin á loft var flugyfirvöldum ljóst að fleiri vélar gætu verið í hættu og var því ákveðið að senda út skilaboð til allra flugmanna í varúðarskyni. United 93 fékk þau skilaboð klukkan 9:23 og fjórum mínútum síðar náðu hryðjuverkamennirnir stjórn yfir vélinni.

Fljótlega þar á eftir byrjuðu farþegar og flugþjónar að hringja í vini og fjölskyldumeðlimi og komust þá að fyrri árásum og greindu frá því að hryðjuverkamennirnir hefðu beitt svipuðum brögðum og í hinum vélunum.

Í kjölfarið byrjuðu farþegar og flugþjónar að ræða það hvort þeir ættu að gera uppreisn og samkvæmt einum sem farþegi ræddi við kusu þau um málið, hvort þau ættu að gera það eða ekki. Klukkan 9:57 héldu farþegarnir að flugklefanum til að berjast gegn hryðjuverkamönnunum.

Næstu mínútur ræddu hryðjuverkamennirnir hvort þeir ættu að halda áfram áætlun sinni en þegar það var þeim ljóst að farþegarnir væru að ná yfirhöndinni viku þeir frá þeirri áætlun. Klukkan 10:02 brotlenti vélin á tómum akri í Pennsylvaníu.

Tvíburaturnarnir hrundu báðir og létust um 2.750 manns í New York þennan dag. Í Pentagon létust 184. Í heildina létust nærri þrjú þúsund manns í árásunum, þar á meðal allir farþegar vélanna og allir hryðjuverkamennirnir. Mannfallið hefði verið meira ef hryðjuverkamönnunum fjórum sem reyndu að ná vél United Airlines 93 á sitt vald hefði tekist ætlunarverk sitt.

Var það ætlun hryðjuverkamannanna að ráðast á byggingar sem táknuðu það sem Bandaríkin stæðu fyrir, til að mynda alríkisþinghúsið í Washington eða Hvíta húsið. Vélin brotlenti á akri í Pennsylvaníu skömmu eftir klukkan 10 og létust þar 40 manns um borð, auk hryðjuverkamannanna.

„Við erum þess fullviss að þjóðin stendur í þakkarskuld við farþega United 93. Viðbrögð þeirra björguðu lífum fjölmargra annarra, og það getur verið að þau hafi bjargað annað hvort þinghúsinu eða Hvíta húsinu,“ segir í skýrslu nefndarinnar sem fjallaði um árásirnar.

Björgunarstarf stóð yfir í marga daga en margir viðbragðsaðilar, mest megnis slökkviliðsmenn, létust þegar turnarnir hrundu.
Fréttablaðið/Getty

Glíma enn við afleiðingarnar

Árásirnar voru vissulega þungt högg fyrir Bandaríkin í heild, en verstar fyrir New York-ríki. Eftir að Tvíburaturnarnir hrundu og World Trade Center var í rúst, tók við umfangsmikið björgunarstarf og mikil óvissa. Það tók rúmlega átta mánuði að hreinsa upp brakið eftir fall turnanna, um 1,8 milljón tonn.

Kostnaður við hreinsunarstarfið nam um 750 milljónum dala en árásirnar áttu eftir að kosta Bandaríkin hundruð milljarða í heildina. Fyrstu vikurnar eftir árásirnar nam fjárhagslegt tap 123 milljörðum dala auk þess sem færri ferðuðust með flugvélum árin eftir.

Skemmdirnar sem árásirnar olli við World Trade Center og byggingar í kring hljóðuðu upp á60 milljarða og tryggingakröfur sem greiddar voru út voru 9,3 milljarðar dalir.

Þá samþykkti bandaríska þingið þann 14. september 40 milljarða dala neyðarpakka til að bregðast við hryðjuverkunum og samþykkti þingið einnig að veita flugfélögum 15 milljarða til stuðnings.

Í upphafi var óttast að fleiri þúsund manns sem voru í turninum hefðu látist en endanleg tala látinna var líkt og áður sagði rúmlega 2.750, þar á meðal voru ríflega 400 slökkviliðsmenn og lögreglumenn sem létust við björgunarstörf.

Auk þeirra sem létust þann 11. september hafa fleiri hundruð viðbragðsaðila látist vegna sjúkdóma á borð við krabbamein og öndunarfærasjúkdóma árin eftir árásina vegna magns eiturefna í loftinu sem barst frá rústunum, meðan þau voru við björgunarstörf.

Samkvæmt upplýsingum World Trade Center-verkefnisins, sem miðar að því að veita þeim sem voru viðstödd heilbrigðisþjónustu og aðhald, hafa rúmlega 2.900 viðbragðsaðilar sem voru skráðir í verkefnið látist. Þar að auki hafa 878 almennir borgarar sem voru hluti af verkefninu látist.

Enn að bera kennsl á fórnarlömb

Tuttugu árum síðar er enn verið að bera kennsl á líkamsleifar þeirra sem létust í árásinni á World Trade Center. Í gær greindi réttarmeinarfræðingur New York-borgar frá því að þeim hefði tekist að bera kennsl á líkamsleifar tveggja einstaklinga með lífsýnarannsókn.

Um var að ræða 1.646. og 1.647. einstaklingana sem borin hafa verið kennsl á. Enn á því eftir að bera kennsl á um 40 prósent þeirra sem létust í árásinni á Tvíburaturnana, eða um þúsund manns.

„Fyrir tuttugu árum lofuðum við fjölskyldumeðlimum fórnarlambanna við World Trade Center að gera hvað sem er, sama hversu langan tíma það tekur, til að bera kennsl á ástvini þeirra,“ sagði réttarmeinafræðingurinn Barbara A. Sampson.

Eins og á hverju ári munu fjölskyldumeðlimir þeirra sem létust við árásina koma saman á torginu í World Trade Center við minnisvarðann þar sem nöfn fórnarlambanna eru rituð, í dag.