Síðdegis í gær komu til Íslands tuttugu afganskir flóttamenn. Fólkið er hluti af þeim 30 Afgönum sem staðsettir voru í Evrópu og íslensk stjórnvöld hafa verið í sambandi við. Von er á tíu einstaklingum frá Afganistan til viðbótar á næstunni, fólkið er í Evrópu.

25 til 30 Afganar, sem íslensk stjórnvöld hafa einnig verið í sambandi við, eru enn í Afganistan.

Fólkið sem kom til landsins í gær eru þrír starfsmenn NATO og fjölskyldur þeirra. Ellefu þeirra eru undir átján ára aldri.

Félagsmálaráðuneytið hefur gert samning við Rauða krossinn á Íslandi um að aðstoða þá Afgana sem búa á Íslandi við að fá fjölskyldur sínar frá Afganistan til Íslands.

Mun ráðuneytið fjármagna stöðugildi til að hjálpa þeim við að fylla út umsóknir um fjölskyldusameiningar, ferli sem er talsvert flókið.