Jóhannes Sturlaugsson stendur fyrir göngunni í tuttugasta sinn í samráði við Þjóðgarðinn.

„Gangan hefur mælst það vel fyrir að um margra ára skeið hefur þátttakan verið hreint út sagt mögnuð, gjarnan 300-600 manns. Allt upp í fjórföld miðað við þann mannfjölda sem mætti á Alþingishátíðina 2018,“ segir Jóhannes í léttum tón.

Sjálfur hefur Jóhannes gert rannsóknir á einstökum Þingvallaurriðanum og miðlað þeim fróðleik til gesta.

„Urriðar Öxarár líkt og aðrir Þingvallaurriðar eru einstakir vegna stærðar sinnar og langlífis, enda að segja má óþekkt að urriðar finnist annars staðar sem eru upp í 13 kíló eða meira og allt upp í á annan metra að lengd.

Áhugaverðir lífshættir Þingvallaurriðanna í víðfeðmu og fjölbreyttu vistkerfi Þingvallavatns sem og fornt útlit þessara ísaldarurriða er einnig einkennandi fyrir þá,“ segir Jóhannes sem hefur notast við rafeindafiskamerki til að sækja gögn yfir hegðun urriðanna.

„Áhugaverðir lífshættir Þingvallaurriðanna í víðfeðmu og fjölbreyttu vistkerfi Þingvallavatns sem og fornt útlit þessara ísaldarurriða er einnig einkennandi fyrir þá.“

„Urriðagangan gefur mér einstakt færi á að kynna fyrir almenningi, þar með talið veiðimönnum, í hverju líf þessara fiska felst. Það gefur fólki sýn á tilvistargrundvöll urriðans í Þingvallavatni – og um leið hvernig við mannfólkið getum stuðlað að verndun Þingvallaurriðans og í reynd alls lífríkis vatnsins.

Dalrún, dóttir Jóhannesar, hefur lengst af hjálpað honum í árlegu urriðagöngunni. „Ég þykist vita að hún taki við mínu hlutverki þegar fram í sækir en ég tel mig nú eiga ansi mörg ár eftir áður en þörf verður á því,“ segir hann.

Í heild tekur urriðagangan um eina og hálfa klukkustund en fólki er frjálst að koma og fara eftir hentugleikum enda margt sem gleður augað að hausti á Þingvöllum.

„Einungis eru gengnir um 800 metrar á góðum göngustíg. Þeir sem ekki eiga kost á því að ganga geta sloppið alfarið við það, því upphafsvettvangur göngunnar er þar sem fyrstu urriðarnir eru skoðaðir við brúna, við bílastæðin þar sem fyrrum stóð Valhöll.

Þegar lengra er haldið, við flúðirnar niður af Drekkingarhyl, bíða fleiri stórur­riðar þess að heilsa gestum, meðal annars í stóru búri uppi á bakkanum sem hentar börnunum sérlega vel.