„Þetta er ótrúlega spennandi og ég er mjög glöð yfir að vera komin á þennan stað eftir þriggja ára undirbúning,“ segir Helga Halldórsdóttir.

Ásamt Magnúsi Scheving og fleirum stefnir Helga að því að setja upp svokallaðan upplifunargarð í Borgarnesi sem myndi byggja á hugmyndafræði Latabæjar. Byggða­rráð Borgarbyggðar tók jákvætt í málið á fundi í vikunni.

„Við Magnús ásamt Páli Kr. Pálssyni ráðgjafa, sem hefur verið að vinna með okkur í þessu verkefni, fórum á fundinn þar sem við kynntum ákveðnar hugmyndir. Við fengum góðar viðtökur og byggðar­ráð er mjög áhugasamt um að þetta verði að veruleika,“ segir Helga sem fór inn í verkefnið nánast fyrir tilviljun.

Magnús, sem er uppalinn í Borgarnesi, og eiginmaður Helgu eru vinir frá því í gamla daga. Eftir samtal þeirra á milli árið 2017 tóku þau fjölmarga muni úr Latabæjarstúdíóinu í geymslu.

„Þá fórum við strax af stað að skoða þetta verkefni og höfum tvisvar fengið styrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands sem er hluti af sóknaráætlun landshlutans og hefur gert það að verkum að við erum komin á þennan stað sem við erum í dag. Við erum afar þakklát Uppbyggingarsjóðnum fyrir það af hafa trú á okkur.“

Latibær var sýndur í rúmlega 200 löndum þegar best lét. Margir karakterarnir úr Latabæ eru persónur sem Magnús kynntist í gamla daga úr Borgarnesi.

Þegar Magnús seldi réttinn að Latabæ til Turner-samsteypunnar forðum daga eignaðist stórfyrirtækið einkarétt á vörumerkinu. Það hefur því tekið nokkurn tíma að semja við Turner og fá leyfi til að nota nafnið og munina.

„Það flækti málin aðeins en nú er ákveðið samkomulag komið í höfn við Turner,“ segir Helga.

Borgnesingar eru að sögn Helgu mjög stoltir af Magnúsi og því sem hann hefur afrekað.

„Okkur finnst þessi upplifunargarður hvergi eiga eins vel heima og í Borgarnesi í hans gamla heimabæ, því hann hefur auðvitað sagt það sjálfur að margar af fyrirmyndunum úr Latabæ séu persónur sem hann kynntist hér í gamla daga.“

Lokið hefur verið við forhönnun sýningarinnar inn í 2.000 fermetra hús auk útiaðstöðu. Í húsinu verði safn, stúdíó og veitingastaður.

Magnús Scheving tilkynnir um sölu til Turner sem hefur gefið leyfi á upplifunargarðinn.

„Við teljum að þessu sé best komið fyrir á góðri lóð rétt fyrir utan bæinn. Borgarnes er auðvitað svolítið erfitt landfræðilega séð, langt og mjótt nes, en sveitarfélagið á töluvert af landi,“ segir Helga.

Fram undan eru viðræður við Borgarbyggð og lóðamálið.

Borgarbyggð sýnist í dauðafæri að auka afþreyingu í sveitarfélaginu þótt Borgarnes bjóði upp á ótal margt annað en vegasjoppur og Bjössaróló.

„Latibær er eitt þekktasta vörumerki Íslendinga, það var verið að sýna þættina í um 190 löndum og Magnús er sendiherra hreyfingar og heilsusamlegs lífsstíls. En nú tekur við frekari undirbúningur, fullmóta þarf hugmyndina, móta umgjörð framkvæmda og afla fjármagns sem þarf til að gera verkefnið að raunveruleika. Þetta mun kosta töluverða fjármuni og það fé þarf að koma frá fjárfestum. Þetta er vinnan fram undan og pappírsvinna og fleira, því það er svolítill frumskógur sem þarf að komast í gegnum fyrst. Við höfum tekið varfærin skref hingað til og ætlum að gera það áfram,“ segir Helga.