Erlendur ferðamaður mældist á 157 kílómetra hraða á Reykjanesbraut nýverið. Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu heldur ók rakleiðis í átt að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þetta kemur fram í orðsendingu frá lögreglu.

Fram kemur að 30 ökumenn hafi verið stöðvaðir fyrir of hraðan akstur undanfarna daga á Suðurnesjum. Þessi eini stoppaði ekki, þó lögregla gæfi honum það til kynna. „Lögreglumenn veittu honum eftirför alllanga vegalengd en hann lét ekki segjast fyrr en annarri lögreglubifreið var ekið á móti honum og þá loks stöðvaði hann,“ segir í pósti.

Hann greiddi sektina á staðnum. Á sektarreikni á vef Samgöngustofu kemur fram að ökumanns sem aki á 157 kílómetra hraði, þar sem hámarkshraði sé 90, bíði 230 þúsund króna fjársekt, svipting ökuleyfis í 2 mánuði og 3 refsipunktar í ökuferilsskrá.

Í póstinum segir að annar ökumaður hafi reyndar ekki farið að fyrirmælum lögreglu um að stöðva akstur. Sá sé grunaður um ölvunarakstur. Lögregla þurfti að veita honum eftirför.