Ferða­menn sem heim­sækja gos­stöðvarnar í Mera­dölum hafa mis­munandi háttinn á þegar þeir þurfa að gera þarfir sínar. Sumir taka með sér sér­stök ferða­klósett en aðrir pissa þar sem þeir eru. Björgunar­sveitir segja klósett­mál ekki hafa verið sér­stak­lega til trafala á gos­stöðvunum.

Þetta kemur fram í um­ræðum inni á Face­book hópi ferða­manna sem hafa á­huga á Ís­landi. Þar spyr einn ferða­maður hina hvað þeir geri þegar þeir þurfi að kasta af sér vatni? Og stendur ekki á svörum.

„Þetta virðist vera ansi opið þarna í allar áttir...ég efast um að þú getir pissað nokkurs staðar,“ skrifar einn ferða­mannanna. Heim­sóknir ferða­manna á gossvæðið hafa verið á milli tanna fólks undan­farna daga, meðal annars þar sem sumir mæta illa búnir og aðrir með ör­magna unga­börn.

„Ég tek alltaf með mér ferða­klósett sem ég hef í bak­pokanum mínum á fjall­göngum, á­samt sjúkra­pakka. Eins og ein­hver hefur sagt hér þá er fullt af val­mögu­leikum á Amazon og í göngu­búðum. Þetta er mjög góð spurning og mikil­vægt að virða náttúruna,“ svarar einn.

Annar ferða­maður lýsir því að barn­ungur sonur sinn hafi þurft að pissa á göngunni. „Ég fór með hann eins af­síðis og ég gat, þar sem hann létti af sér, en við fengum samt nokkur augna­gotur,“ skrifar maðurinn.

Sumir ferðamenn taka með sér ferðaklósett líkt og þessi upp á gosstöðvar.
Skjáskot/Amazon

Pissu­pokar, bleyjur og mátunar­klefar

Aðrir benda á að til séu full­orðins­bleyjur. Þá bendir einn á færan­lega „mátunar­klefa“ sem virka eins og stórar skikkjur og hægt er að ganga í og eru til sölu á Amazon. Annar bendir á sér­staka pissu­poka.

„Ekki skilja neinn pappír eftir. Taktu með þér plast­poka og taktu þitt dót með þér,“ segir einn veraldar­vanur maður í hópnum. Annar segist hafa tekið með sér plast­flösku á gönguna.

Flestir segjast þó hafa kastað af sér vatni á göngunni sjálfri. „Ég hef ferðast nógu oft til Ís­lands til að vita að þú pissar alltaf á undan, borðar engar stórar mál­tíðir fyrir göngu, sleppir því að þamba vatn og þá ættirðu að vera góð/ur.“

Einn bendir á „mátunarklefa“ líkt og þessa, líklega í gríni.
Skjáskot/Amazon
Pissupokar virðast vinsælir hjá túristum sem ganga í Meradali.
Skjáskot/Amazon

Unnið að upp­setningu klósetta

Steinar Þór Kristins­son, svæðis­stjóri björgunar­sveitarinnar Þor­bjarnar, segir klósett­mál ekki hafa verið sér­stakt vanda­mál á gos­stöðvunum þó lík­lega sé ekki hægt að úti­loka að sumir upp­fylli þarfir sínar úti á víða­vangi.

„En hversu langt á að ganga á eftir fólki og segja því að hirða upp skítinn eftir sig? Alls­staðar annars staðar þar sem þú labbar ertu með klósett þar? Jú jú það er á­gætt að hafa þetta, en alls ekki björgunar­sveitanna,“ segir Steinar.

Hann segir land­eig­endur í Ís­ólfs­skála hafa sett upp snyrtingar við bíla­stæðin í Leir­dal. „En það er ekki á hinum staðnum, en þetta er í vinnslu, enda menn í ó­tal­verk­efnum.“

En þetta er ekki þannig að fólk er að ganga örna sinna þarna upp eftir hvar sem er?

„Alveg örugg­lega sko. Þú sérð nú bara hvernig sumir túr­istar hafa látið í kringum landið á þjóð­vegunum. Sumir stoppa bara við inn­keyrslur heim að bæjum og losa sig við sitt þar.“

Steinar segir slíkt hátt­erni virðingar­leysi við um­hverfið. „Hvort sem það er upp við gos­stöðvarnar, eða úti í náttúrunni eða við inn­keyrslur fólks.“

Björgunarsveitir segja það ekki sitt hlutverk að þrífa upp skít eftir ferðafólk.
Fréttablaðið/Ernir