Þrír létust og fleiri særðust í hnífaárás í Nice fyrr í dag en árásin átti sér stað nálægt Notre Dame kirkjuna í borginni. Gerandinn var handtekinn stuttu síðar.

Jean-Francois Ricard, saksóknari sagði á blaðamannafundi í dag að hinn grunaði sé karlmaður fæddur árið 1999 frá Túnis sem kom til landsins frá ítölsku eyjunni Lampedusa. Hann var með eintak af Kórarnum í fórum sínum og var með tösku með tveimur ónotuðum hnífum. AP fréttastofan greinir frá.

Tvö fórnarlambanna fundust inni í kirkjunni. Kona á sextugs aldri lést eftir að hafa verið skorin á háls og maður að nafni Vincent Loquès sem starfaði sem kirkjuþjónn í Nore Dame var einnig skorinn á háls og lést inni í kirkjunni. Þriðja fórnarlambið, kona á fimmtugsaldri náði að koma sér útúr kirkjunni en lést af sárum sínum á veitingastað í grennd við kirkjuna.

Árásamaðurinn varð fyrir skoti þegar lögreglumenn skutu í átt að kirkjunni í dag. Hann slasaðist alvarlega og liggur nú á sjúkrahúsi.

Kom til Frakklands frá Lampedusa

Samkvæmt myndbandsupptökum á lestarstöðinni í Nice er talið að gerandinn hafi komið til borgarinnar í gær og skipt um föt. Samkvæmt AP kom maðurinn til Parísar þann 9. október frá ítölsku eyjunni Lampedusa.

Vitað er um ferðir mannsins til Ítalíu vegna þess að hann var með skjal frá Rauða krossinum á Ítalíu. Hann kom til Lampedusa þann 20. september og var skipaður í sóttkví við komuna, að henni lokinni var manninum gert að yfirgefa ítalskt landsvæði.

Árásin rannsökuð sem hryðjuverk

Samkvæmt embætti saksóknara er árásin rannsökuð sem hryðjuverk. 

Árásin í Nice í dag var sú þriðja á tveimur mánuðum sem frönsk yfirvöld rekja til múslímskra öfgamanna.

Emmanuel Macron forseti Frakklands hefur fordæmt árásina og segir að hana hryðjuverk íslamista. Forsetinn kvaðst þá ætla að beita hörðu gegn íslömskum öfgamönnum og standa vörð um veraldleg gildi. Hann tilkynnti í dag að hermenn sem vakta franska skóla og bænahús verði fjölgað úr 3.000 í 7.000.

Undanfarnar vikur hefur verið mikil andúð í garð Frakka í ríkjum múslima vegna yfirlýsinga Macrons á dögunum eftir morð á frönskum kennara vegna umfjöllunar hans um skopmyndir af spámanninum Múhameð.