Samkvæmt sex mánaða uppgjöri Kópavogsbæjar er heimaþjónusta 26 milljónum króna undir fjárhagsáætlun og ferðaþjónusta fatlaðra er 28,8 milljónum króna undir áætlun. Hluti af heimaþjónustunni skýrist reyndar af verkfalli Eflingar. Örvi, starfsþjálfun einstaklinga með skerta starfsgetu, og Hæfing, vernduð vinna, hafa verið lokuð en tekjur haldið sér og er þetta því lækkun um 11,3 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins.

Alls hafa því sparast 66 milljónir króna hjá velferðarsviðinu af því að þjónustan hefur ekki verið nýtt. 196 af 628 heimilum afþökkuðu heimaþjónustu, eða um 30 prósent.

„Við viljum að heyrt verði í því fólki sem afþakkaði þjónustuna til að meta stöðuna upp á framtíðina, að geta sinnt fólki þó að það sé smithætta,“ segir Kristín Sævarsdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í velferðarráði. „Við heyrðum sögur af eldra fólki og fötluðu sem brotnaði niður andlega vegna einangrunar á meðan á hápunkti faraldursins stóð. Það eru ekki aðeins þrif eða akstur sem skipta máli, heldur að hitta annað fólk og eiga samskipti.“ Tillögunni um slíka könnun var hafnað af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segir þetta langt frá að vera einsdæmi í Kópavogi, heldur eigi hið sama við um önnur sveitarfélög. Miklar upphæðir hafi sparast af því að þjónustan hafi ekki verið nýtt þegar faraldurinn stóð sem hæst í vor.

Þuríður segir þetta tvíþætt. „Sveitarfélögin gátu eða vildu ekki senda heimaþjónustu til fólks og ekki heldur bílana, því það voru takmarkanir í gangi. Það dró verulega úr þjónustu við fatlað fólk á þessum tíma,“ segir hún. Þá segir hún að margir sem eiga rétt á þjónustunni hafi hafnað henni af ótta við veiruna. Þetta hafi til dæmis komið upp þegar Reykjavíkurborg reyndi að efla heimaþjónustu sína.

Afleiðingarnar hafi verið þær að ákveðinn hópur einangraðist og átti mjög erfitt. „Fólk missti ferðafrelsi sitt, komst ekki í endurhæfingu eða sjúkraþjálfun því að þetta var allt lokað,“ segir Þuríður. „Við sáum að fólk var í miklum vanda, var dapurt, hrætt og öryggislaust, og sumir áttu í erfiðleikum með að verða sér úti um nauðsynjar.“

Fólk í áhættuhópum er enn þá varkárt og neitar sér um ýmislegt en ástandið hefur verið mun skárra í seinni bylgjunni. Ferðaþjónusta fatlaðra er komin aftur af stað, sjúkraþjálfun aftur komin í gang og lífið í eðlilegri rútínu.

Þuríður hvetur sveitarfélögin til að nýta þá fjármuni sem ekki nýttust í vor til að bæta þjónustu við fatlaða, til dæmis húsnæðisstuðning. „Fátæktin í þessum hóp hefur aukist, sérstaklega hjá einstæðum fötluðum mæðrum.“ Kristín segir það sama. „Þetta fjármagn á klárlega að haldast inni á velferðarsviði og ég treysti því að fé verði stóraukið því við erum að halda inn í erfiðan vetur og fjöldinn eykst sem þarf á fjárhagsaðstoð að halda.“