Kostnaður vegna óveðurstjóns í Straumsvíkurhöfn hleypur á tugum milljóna króna. Kemur þetta fram í skýrslu sem verkfræðistofan Strendingur gerði fyrir Hafnarfjarðarhöfn og byggir á skoðun kafara frá Köfunarþjónustunni.

Mikið óveður gekk yfir landið 9. og 10. desember síðastliðinn og var öldugangur mikill. Í desember var greint frá því að 7,5 milljóna króna tjón hefði orðið á suðurenda bryggjunnar þar sem stór hola hafði myndast á varnargarði. Hafði aldan grafið sig 15 metra inn í vörnina og skolað út fyllingu.

Þær skemmdir sem nú er um að ræða eru á hinum bakka hafnarinnar og leggjast ofan á kostnaðinn sem þegar hefur verið reiknaður. „Þetta eru fyrstu kannanir og við höfum ekki unnið neitt verðmat enn þá,“ segir Lúðvík Geirsson hafnarstjóri.

Stórt gat er á milli kerja á fimm metra dýpi. Samkvæmt upplýsingum frá köfurum hefur gatið byrjað að myndast fyrir þó nokkru síðan en óveðrið hafi verulega stækkað það. Efni hafi skolast út og „hellir“ myndast fyrir innan. Til viðgerðar þurfi að brjóta upp steypta þekju og fylla í gatið auk þess sem kafari hreinsi sárið.

Lúðvík Geirsson hafnarstjóri
Fréttablaðið/Anton Brink

Nauðsynlegt að laga gatið sem fyrst

Lúðvík segir nauðsynlegt að laga gatið, helst sem fyrst til að ekki fari meira efni út í sjó, en það skapi þó ekki hættu á svæðinu. Gatið sé aftarlega á bakkanum þar sem ekki sé þung umferð. „Veðrið í vetur hefur verið hreint ótrúlegt. Í þessu óveðri stóð beint upp á af norðvestan, um 30 metrar á sekúndu, nánast samfleytt í tíu klukkutíma,“ segir hann.

Lúðvík segir þessar skemmdir ekki hafa nein áhrif á flutninga til og frá álverinu í Straumsvík. En framtíð þess hefur verið í nokkurri óvissu þar sem Rio Tinto mun meta rekstrarhæfið og skoðar möguleikann á að hætta starfseminni.

Kostnaðurinn vegna viðgerðanna mun ekki falla á Hafnarfjarðarhöfn nema að hluta því að skylt er að tryggja allar hafnir ríkis og sveitarfélaga hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Eigin áhætta mannvirkja er tvö prósent en að lágmarki ein milljón króna.

„Næstu skref eru þau að tæknimenn hjá okkur og tryggingunum eru að fara yfir málin og taka ákvörðun um hvernig staðið verður að endurbótum,“ segir Lúðvík.