Vél- og málmtæknifyrirtækið Héðinn, sem starfað hefur í rúma öld, fjárfesti nýlega í tugmilljóna króna borvél. Vélin verður notuð vegna vinnu við íhluti í vélar sem munu framleiða próteinríka smáþörunga í verksmiðju Vaxa Technologies í Jarðhitagarðinum við Hellisheiðarvirkjun.

Eins og Fréttablaðið greindi frá þann 20. janúar sýnir ný rannsókn að Ísland hefur getu til að sjá fjörutíu milljón manns fyrir próteini. Byggir hún á tölum frá Vaxa og Orkustofnun.

„Forsenda kaupanna er fyrst og fremst þetta verkefni fyrir Vaxa Tech­nologies,“ segir Rögnvaldur Einarsson, framkvæmdastjóri Héðins. „Umfangið hjá þeim er það mikið að það réttlætti þessa fjárfestingu, en við höfum einnig fundið fyrir áhuga frá matvælaiðnaðinum og öðrum iðnfyrirtækjum almennt hér á landi á græjunni.“

Vélin hefur nú verið sett upp í húsnæði Héðins við Gjáhellu í Hafnarfirði. Tæknimaður frá finnskum framleiðanda sá um uppsetningu og þjálfun starfsfólks. Héðinn hefur tekið þátt í hönnun, smíði og uppsetningu vélbúnaðar í 15 þúsund fermetra verksmiðjum Vaxa Techno­logies frá upphafi.