Mikið tjón varð í nokkrum byggingum Há­­­skóla Ís­lands þann 21. janúar er rof kom á kalda­­­vatns­­­æð á Suður­götu. Vatn flæddi inn í aðal­­byggingu skólans, Árna­­garð, Gimli og Stúdenta­kjallarann en enn bólar ekkert á niður­­­stöðu dóm­kvaddra mats­manna á lekanum.

Jón Atli Bene­dikts­­son rektor segir í sam­tali við Frétta­blaðið að hann vonist til þess að skýrsla mats­manna liggi fyrir innan skamms. Hve langan tíma skýrslu­­gerðin taki sé meðal annars vegna þess að hún sé flókin vegna um­­fangs lekans.

Fram kom í til­­­kynningu frá Veitum á sínum tíma að lekinn hafi staðið í 75 mínútur áður en náðist að loka fyrir vatns­­æð sem úr lak og runnu út um 2.250 tonn af vatni. Fram­­kvæmdir stóðu yfir við vatns­­lagnir á Suður­­götu og fór stofn­lög vatns í sundur með fyrr­­greindum af­­leiðingum. Sam­­kvæmt niður­­­stöðu greiningar starfs­­fólks Veitna á at­vikinu voru fram­­kvæmdirnar á­­stæða lekans.

Gríðar­legt magn vatns flæddi inn í byggingar skólans 21. janúar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Á fundi há­­skóla­ráðs 2. septem­ber veittu þeir Kristinn Jóhannes­­son, sviðs­­stjóri fram­­kvæmda- og tækni­­­sviðs há­­skólans, og Björn Atli Davíðs­­son, lög­­fræðingur á skrif­­stofu rektors upp­­­lýsingar um stöðuna varðandi vatns­­tjónið. Sam­­kvæmt fundar­­gerð væri ekki hægt að ráðast í endur­­bætur á hús­­næðinu fyrr en matsgerðin lægi fyrir.

Grípa þurfti til neyðar­ráð­­stafana varðandi kennslu- og skrif­­stofu­hús­­næði með til­­heyrandi í­þyngjandi á­hrifum. Fram kom í fundar­­gerðinni að Há­­skóla­ráð legði mikla á­herslu á skjóta úr­­­lausn málsins til að koma starf­­semi skólans aftur í eðli­­legt horf.

„Vonir standa til þess að mats­­gerð dóm­kvaddra mats­manna berist á næstunni en ná­­kvæm dag­­setning liggur ekki fyrir. Vatns­­tjón af þessu tagi á sér lík­­lega ekki for­­dæmi í ís­­lenskri réttar­­sögu og matsand­lagið er bæði um­­fangs­­mikið og flókið. Hér er um að ræða fast­­eignir, innan­­­stokks­muni og tækja­búnað,“ segir Jón Atli.

Rektor segir Há­­skólann hafa mátt bera mikinn kostnað vegna neyðar­ráð­­stafana. Leiga fyrir­­­lestra­sala á þessu haust­misseri hleypur á um 30 til 35 milljónum króna að sögn hans.

„Þá er ó­­talinn annar kostnaður sem fylgir því að færa starf­­semi milli staða. Þetta rask hefur valdið starfs­­fólki og nem­endum Há­­skólans auknu á­lagi sem erfitt er að meta til fjár. For­svars­­menn Há­­skóla Ís­lands og annarra tjón­þola munu auð­vitað krefjast þess að tjón skólans fáist að fullu bætt úr hendi þeirra sem bera á­byrgð á því, þar á meðal kostnaður vegna ráð­­stafana sem þóttu nauð­­syn­­legar til þess að Há­­skólinn gæti haldið úti eðli­­legri starf­­semi,“ segir rektor.

Leiga fyrir­­­­­lestra­sala á þessu haust­misseri vegna tjónsins hleypur á um 30 til 35 milljónum króna.
Fréttablaðið/Valli