„Dagurinn var mjög þéttur. Við fórum í 28 útköll vegna vatnstjóns úti um allt höfuðborgarsvæðið, bæði í fyrirtæki og heimili,“ sagði Ásdís Gíslason, upplýsingafulltrúi hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, um verkefni gærdagsins.

„Það var helst að það væri að leka inn á þök, svalir og staði þar sem fólk gleymdi að hreinsa niðurföllin,“ segir Ásdís. Viðvaranir um fyrirhugaða asahláku gætu hafa skilað sér.

„Þegar allir hjálpast að gengur þetta betur,“ segir Ásdís og bætir við að slökkviliðið hafi undirbúið sig vel.

„Við vorum með aukalega tvo þjónustubíla til taks sem voru að fara milli staða og vorum vel undir þetta búin. Það reyndist heillaskref.“