Fari allt á versta veg gætu þrjátíu refsingar fyrnst á árinu. Þetta kemur fram í svari Fangelsismálastofnunnar við fyrirspurn Fréttablaðsins. Í fyrra fyrndust 16 refsingar sem var töluverður árangur frá árinu á undan þegar 35 refsingar fyrndust.

Meðan neyðarstig viðbragðsáætlunar er í gildi verða ekki teknir inn fangar nema í ýtrustu neyð og þá aðeins þeir dómþolar sem teljast hættulegir umhverfinu.

Um 600 manns eru nú á boðunarlista Fangelsismálastofnunar en þeir voru 552 í árslok 2019. Um 86 prósent þeiira eiga að afplána stutta dóma, eitt ár eða minna. Af þeim eru rúmlega fimmtíu farnir úr landi, flestir útlendingar sem fengu dóma fyrir skjalafals og brot á útlendingalögum. Þá hefur 77 verið heimilað að ljúka afplánun með samfélagsþjónustu en neyðarstig almannavarna og samkomubann hefur þó þau áhrif að verr gengur að útvega þeim verkefni.

hb_pall-winkel.jpg

Páll Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunar

Páll Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunar segir að boðunarlistinn hafi tekið töluverðum breytingum á undanförnum árum. Þegar hætt var að úrskurða þá sem komu til landsins á fölsuðum skilríkjum í gæsluvarðhald bættust þeir í staðinn á boðunarlista í kjölfar dóms. þegar röðin komi að þeim hafi þeim í flestum tilvikum verið vísað úr landi.

Páll segir fleira en farsóttina hafa áhrif á þann fjöldafangelsin geti tekið inn til afplánunar á hverjum tíma. „Það hefur orðið alger sprenging í fjölda gæsluvarðhaldsfanga og í raun slegið fjöldamet mánuð eftir mánuð,“ segir Páll.

Innkomur til afplánunnar á síðasta ári voru 206, en innkomur dómþola voru þó innan við helmingur þeirra sem alls komu til vistar í fangelsi því auk þeirra komu 177 til gæsluvarðhaldsvistar og 57 til afplánunar vararefsinga.