Ráðherrar ríkisstjórnarinnar útdeildu alls 21,3 milljónum króna af ráðstöfunarfé sínu til styrktar hinum ýmsu verkefnum og málefnum í fyrra. Tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins nýttu ekkert af ráðstöfunarfé sínu.
Uppfært kl. 10:50
Fréttin hefur verið uppfærð. Rangar upplýsingar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu birtust í Fréttablaðinu í dag þar sem fjallað var um ráðstöfun ráðherra ríkisstjórnarinnar á skúffufé sínu í fyrra. Fyrir vikið birtust upplýsingar um verkefnastyrki ráðuneytisins, ekki ráðstöfun skúffufjár sem er umtalsvert lægri.
Þetta kemur fram í svörum allra ráðuneyta við fyrirspurn Fréttablaðsins þar sem óskað var eftir sundurliðuðu yfirliti yfir ráðstöfun hvers ráðherra á skúffufé hans í fyrra og það sem af er þessu ári.
Þótt til séu verklagsreglur um ráðstöfunarfé ráðherra í hverju ráðuneyti eru engar samræmdar reglur til um þessar úthlutanir. Skúffufé ráðherra hefur í gegnum tíðina margoft verið gagnrýnt, meðal annars fyrir ógagnsæi og að með því geti ráðherrar dælt út ríkisfé að eigin geðþótta eftir hugðarefnum.
Í hverjum fjárlögum er ákveðin upphæð eyrnamerkt liðnum ráðstöfunarfé ráðherra en einnig hefur verið heimilt að flytja afgang frá árinu áður til þess næsta. Hverjum sem er er heimilt að senda inn umsókn um styrk til ráðherra.
Sem fyrr segir nýttu allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sér heimild sína til að útdeila styrkjum til verkefna nema Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
„Guðlaugur Þór ákvað á fyrstu dögum sínum í embætti utanríkisráðherra að hann myndi ekki ganga á ráðstöfunarfé ráðherra,“ segir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins. Guðlaugur Þór hefur því ekki veitt neina styrki frá ársbyrjun 2017. Þrátt fyrir að tveir ráðherrar sætu hjá voru úthlutanir hærri í fyrra en árið 2016 þegar ráðherrar veittu 31,5 milljónir úr skúffum sínum. Nánari útlistun á hverjum einasta skúffufjárstyrk í fyrra má finna í töflunni hér að neðan.