Ríkislögmaður fær 30 milljóna framlag vegna aukins málafjölda, bæði innanlands og hjá Mannréttindadómstól Evrópu. Í drögum að fjármálaáætlun er vísað til aukins álags hjá embættinu eftir að það hóf að sinna fyrirsvari fyrir Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) árið 2016. „Fyrir Mannréttindadómstól Evrópu bíður verulegur fjöldi kæra á hendur íslenska ríkinu og má ætla að nokkur fjölgun verði á málum sem dómstóllinn tekur til efnismeðferðar en það mun auka á álag embættisins til muna.“

Ákæruvaldið styrkt vegna aukins málafjölda

Alls hækka fjárheimildir ákæruvalds og réttarvörslu fyrir ríkið um 120 milljónir auk almennra launa- og verðlagsbreytinga samkvæmt nýkynntum fjárlögum. Auk hækkunar til ríkislögmanns er fjárheimild málaflokksins hækkuð um 90 milljónir til mæta kostnaði við fjölgun um sex stöðugildi rannsakenda.

Í nýkynntri fjármálaáætlun segir að fjölgun mála sé helsta áskorun ákæruvaldsins á næstu fjórum árum. „Til að sporna við löngum málsmeðferðartíma er mikilvægt að ráðast í þjálfun og fræðslu ákærenda og fjölga þeim.“ Einnig er vísað til samþykktrar aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins sem þegar hefur verið samþykkt og fjármögnuð „en á grundvelli hennar var stöðugildum fjölgað við rannsóknir og saksókn kynferðisbrota, bæði hjá lögregluembættum og embætti héraðssaksóknara, segir í fjármálaáætlun.