Fjöldi fólks beið eftir því að komast inn í Partýbúðina í Skeifunni í dag. Svo virðist sem að enginn í röðinni hafi heyrt um tveggja metra regluna. Eins og sjá má í myndbandinu fyrir neðan voru tugir manns samankomnir í röðinni og stóðu allir upp við næsta mann.

Friðrik Jónsson, hárgreiðslumaður á Slippnum deildi myndbandi af röðinni og skrifaði „Svo finnst okkur skrítið að ástandið versni bara í samfélaginu..."

Samkvæmt Vísi.is sem náði tali af verslunarstjóra búðarinnar voru tveir starfsmenn settir í það að viðhalda tveggja metra fjarlægð milli fólks þegar löng röð myndaðist fyrir utan.

Hrekkjavökuhátíðin er líklega ástæðan fyrir því að öngþveiti var við búðina í dag en Partýbúðin er með sérstaka kvöldopnun í þessari viku til að dreifa umferðinni í búðinni. Svo virðist sem að það virki inni í búðinni en fólk hugi ekki að því fyrir utan.

Tveggja metra reglan tók aftur gildi á höfuðborgarsvæðinu þann 6. október síðastliðinn og var innleidd á öllu landinu þann 20. október.