Að minnsta kosti 32 eru látnir og á annað hundruð eru særð eftir tvær sjálfs­morðs­sprengu­á­rásir á Bab al-Sharqi markaðinum í mið­borg Bag­hdad fyrr í dag. Enn sem komið er hefur enginn lýst yfir á­byrgð á á­rásinni en hernaðar­yfir­völd í Írak segja að með­limir íslamska ríkisins hafi verið að verki.

Að því er kemur fram í frétt AP frétta­stofunnar um málið kallaði fyrsti á­rásar­maðurinn eftir hjálp frá við­stöddum til þess að draga sem flesta að sér áður en hann sprengdi sig í loft upp. Hinn á­rásar­maðurinn sprengdi sig síðan í loft upp skömmu síðar.

Bar­ham Sali­h, for­seti Írak, sagði í færslu á Twitter að á­rásin hafi stað­fest það að myrkra­öfl væru að reyna að hafa á­hrif á fram­tíð Íraks og koma þjóðinni úr jafn­vægi. Þá sagði banda­ríska sendi­ráðið í Bag­hdad í yfir­lýsingu að á­rásin hafi sýnt fram á hug­leysi.

Mikil ólga

Þetta er í fyrsta sinn í þrjú ár sem sjálfs­morðs­sprengjuárás á sér stað í miðborg Bag­hdad en skæru­liðar hafa þó staðið fyrir miklum á­rásum annars staðar í Írak síðast­liðna mánuði.

Mikil ólga er í Írak um þessar mundir en stjórn­völd greindu frá því fyrr í mánuðinum að kosningum í landinu yrði flýtt eftir á­kall frá mót­mælendum að brugðist yrði við spillingu innan stjórn­kerfisins. Þá er efna­hags­kerfi landsins að hruni komið í kjöl­far sögu­lega lágs olíu­verðs.

Rétt er að vara við efni myndbandsins sem fylgir hér fyrir neðan en myndbandið sýnir fyrri sprenginguna.