„Það þarf að taka tillit til þess í ríkisviðbúnaði að virkin eru hvergi fullkomlega örugg,“ segir Tómas Jóhannesson, fagstjóri og sérfræðingur í ofanflóðamálum hjá Veðurstofu Íslands. „Þegar aðstæður verða mjög slæmar er möguleiki á að grípa þurfi til rýmingar til að tryggja öryggi.“

Nýtt hættumat hefur verið gert fyrir Flateyri og hættusvæðið útfært. Á þriðja tug húsa eru nú komin inn á hættusvæði C, sem er efsta stigið, og um sjötíu á ýtrasta rýmingarstig. Þá fer C-svæði 250 metrum lengra inn á höfnina og inn á land sunnan og vestan við hana. Mikið tjón varð á höfninni í snjóflóði úr Skollahvilft í janúar.

„Þessi áhrif, sem voru þekkt fyrir, eru öflugri en við gerðum ráð fyrir,“ segir Tómas. Segir hann þurfa að finna leiðir til að komast hjá því að flóð endi í höfninni. Tekur Tómas því undir með hafnarstjóra Ísafjarðar en hann benti á það í nýlegri skýrslu að garðarnir hefðu beint flóðinu inn í höfnina sem væri óviðunandi fyrir atvinnulíf þorpsins.

Tómas Jóhannesson, jöklafræðingur á Veðurstofu Íslands

Í ljósi þess að það flæddi yfir garðana á Flateyri, inn í byggð, er verið að vinna hættumat fyrir fimm sambærilega varnargarða. Á Ísafirði, Bíldudal, Siglufirði, Ólafsfirði og Neskaupstað. „Það er gert ráð fyrir ákveðinni hættu á yfirflæði og að snjódýpt verði meiri en stoðvirki eru hönnuð fyrir. Það er undantekningarlaust hættusvæði undir öllum þessum varnarvirkjum og ákveðin áhætta í byggðinni þar undir,“ segir Tómas. „Flóðin á Flateyri sýndu okkur að hættan er meiri en við gerðum ráð fyrir.“

Hafsteinn Pálsson, verkfræðingur hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, segir að vinna sé hafin við að skoða endurbætur á görðunum á Flateyri, út frá sviðsmyndum og líkanakeyrslum. „Ég á von á því að sú mynd skýrist snemma á næsta ári,“ segir hann.

Kostnaðurinn liggur hins vegar ekki fyrir vegna endurbóta á Flateyri. Enn þá liggi ekki fyrir hvort garðarnir á hinum fimm stöðunum verði styrktir eða þeim breytt.

„Við erum í miðri á,“ segir Hafsteinn um stöðu ofanflóðavarna í landinu, sem voru efldar eftir snjóflóðin á Flateyri og Súðavík árið 1995. Enn þá séu margir staðir að hluta óvarðir og stór verkefni eftir. Nefnir hann garða á Patreksfirði, Bíldudal, Tálknafirði, Hnífsdal, Siglufirði, Seyðisfirði, Neskaupstað og Eskifirði.

Gangi fjárlagafrumvarpið eftir verða fjárveitingar til Ofanflóðasjóðs tæpir 2,7 milljarðar á næsta ári. Er það aukning um 1,6 milljarða. Er fjármagnið bæði ætlað til að byggja og bæta varnargarða og til uppkaupa á íbúðarhúsnæði á hættusvæðum.