Yfir fimmtíu eru látnir og yfir hundrað særðir eftir að lest með um 500 farþega keyrði á mannlausan flutningabíl nálægt borginni Hualien á Taívan á föstudag.
Bíllinn var í eigu iðnaðarmanns sem hafði lagt honum án handbremsu á nálægu byggingarsvæði. Bíllinn rann stjórnlaust niður fjallshlíð og yfir á lestarteinana. Nokkrum mínútum síðar keyrði lestin inn í hlið bílsins nálægt göngum.
„Margir krömdust undir lestarsætunum í árekstrinum. Ofan á sætunum voru svo aðrir farþegar þannig að þeir sem lentu undir krömdust og misstu meðvitund,“ sagði særður farþegi í viðtali við taívönsku sjónvarpsstöðina EBC.
Á meðal látinna voru lestarstjóri og aðstoðarlestarstjóri lestarinnar. Lestaryfirvöld á Taívan segja þetta vera mannskæðasta lestarslys í sögu landsins. Slysið átti sér stað á fyrsta degi árlegrar trúarhátíðar þar sem fjölskyldur koma saman og heimsækja grafreiti ættingja sinna. Álag var því á lestarkerfinu.