Mikil ókyrrð er meðal flugþjóna og flugfreyja hjá flugfélaginu Play og hefur fjöldi starfsmanna sagt starfi sínu lausu á síðustu mánuðum. Fréttablaðið hefur verið í sambandi við fjölmargar núverandi og fyrrverandi flugfreyjur og flugþjóna hjá félaginu síðustu daga og segja þau flest að reiði starfsmanna sé vegna þess að laun séu í engu samræmi við álag.

Fréttablaðið fékk einnig að sjá útborguð laun hjá einni flugfreyju en þau voru 289 þúsund krónur. „Við erum búin að vera að fljúga rosalega mikið og það er mikið keyrt á okkur en það er ekki að skila sér í launatékkann,“ segir flugþjónn sem vill ekki láta nafns síns getið. Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play, segir þetta hins vegar ekki rétt. Hún segir engan fá aðeins útborgaðar 289 þúsund krónur heldur fái flugliðar þrjá launaseðla um hver mánaðamót og að Fréttablaðið hafi að öllum líkindum aðeins fengið einn þeirra.

Önnur flugfreyja sem sjálf sagði starfi sínu lausu telur að hátt í fjörutíu hafi sagt upp á síðustu tveimur mánuðum, þar á meðal tíu svokallaðar fyrstu freyjur. „Mikil starfsmannavelta fer á skjön við eðli starfsins,“ segir hún og býst við að fleiri séu að hætta um mánaðamótin.

Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um fjölda uppsagna starfsmanna segir Nadine að ekki sé um mikinn fjölda að ræða miðað við stærð félagsins..

„Nokkrir flugliðar hafa vissulega sagt starfi sínu lausu á síðustu vikum. Þeir flugliðar gáfu upp ýmsar ástæður, til dæmis eru sumir á leið í nám, aðrir sem ákváðu að hverfa til annarra starfa og svo þeir sem eru að hefja störf hjá öðrum flugfélögum.Það er ekki óeðlilegt að það sé starfsmannavelta á svona stórum og vaxandi vinnustað en um 350 manns vinna nú hjá félaginu.“

Nadine segir ekki rétt að hátt í fjörutíu hafi sagt starfi sínu lausu heldur segir hátt í 20 fastráðna flugliðar hafa sagt starfi sínu lausu á síðustu fjórum til fimm mánuðum.

Lokuðu á spurningar vegna reiði starfsmanna

Óánægja flug­freyja og flug­þjóna snýr einnig að stéttarfélagi þeirra, Íslenska flugstéttafélaginu, en þau eiga engan full­trúa í stjórn auk þess sem kjara­samn­ingur félags­ins við Play var gerður án aðkomu þeirra. ÍFF hefur boðað félagsmenn á fund í dag en af samskiptum félagsmanna við ÍFF, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, að dæma er mikill hiti í félagsmönnum.

Stéttarfélagið býður að þeirra mati ekki upp á nein hlunnindi eins og gleraugnastyrki eða líkamsræktarstyrki og segja flugliðarnir félagið rekið af samstarfsmönnum Play, sem þau upplifi að séu ekki á þeirra bandi. Þá þurfi flugfreyjur og flugþjónar sjálf að keyra Reykjanesbrautina í vinnuna, hvernig sem viðrar.

„Maður er eiginlega að borga í ekkert, það ekki eins og maður getað leitað til þeirra,“ segir einn flugþjónninn.

„Það er alltaf verið að troða inn í hausinn á okkur að við séum öll í þessu saman á meðan þau eru bara á „sky high“ launum,“ bætir hann við.

ÍFF boðaði til fundar með félagsmönnum klukkan 16.00 í dag og opnaði félagið fyrir nafnlausar spurningar í lokuðu kerfi til þess að ræða á fundinum. Það fór svo að það þurfti að loka fyrir kerfið vegna reiði starfsmanna.

„Varðandi erindi á fundi. Í upphafi var lagt upp með að hafa slido sem nafnlausan vettvang fyrir fólk til að koma með spurningar til að taka fyrir á fundum. Það hefur breyst í þá átt að fólk nýtir þennan vettvang til að smána og breiða út níð á hendur stjórnarmeðlima sem við líðum ekki. Tókum því ákvörðun um að loka fyrir þessa gátt,“ segir í tölvupósti til félagsmanna, sem Fréttablaðið hefur undir höndum.

Nafnlausar spurningar félagsmanna til ÍFF fyrir fundinn í dag.
Fréttablaðið/skjáskot

Hvað hafið þið áorkað í okkar baráttu sem réttlætir þessi mánaðarlaun?“

Frétta­blaðið hefur einnig undir höndum hinar nafn­lausu spurningar fé­lags­manna en þar jusu starfs­menn úr skálum reiði sinnar.
Hér eru valin dæmi um spurningar sem starfs­menn vildu fá svör við á fundinum:

„Ef þið lítið til baka síðustu 12 mánuði hvað hafið þið á­orkað í okkar bar­áttu sem rétt­lætir þessi mánaðar­laun?“

„Af hverju er kjara­samningur okkar ekki að­gengi­legur neins staðar? Þarf hann ekki að vera opin­ber?“

„Getum við vin­sam­legast haldið kosningu um það hvort fé­lags­menn vilji hefja við­ræður við FFÍ og veita þeim samnings­um­boð okkar?“

„Hvernig getið þið í ÍFF rétt­lætt það að borga ykkur laun 150 þús á mánuði + 35 þús fyrir setu á fundi ekki í takt við okkar laun og ekkert safnast í fé­lagið“

„Getum við fengið ó­háða lög­fræði­stofu til að rann­saka gerð kjara­samninganna?“

„Er mögu­leiki að lækka launin ykkar og ráða inn ó­háða aðila á skrif­stofu ÍFF?“

„Gríðar­leg starfs­manna­velta og mikil ó­á­nægja! Sýnið nú djörfung og dug, hlustið á hópinn og þiggið að­stoðina sem að ASÍ og FFÍ hafa nú þegar boðið ykkur“

„Ætlið þið að pressa á Play að opna samninginn eftir að margir sögðu upp sökum launa?“

Félagsmenn nýttu tækifærið og kröfðust svara frá ÍFF.
Fréttablaðið/skjáskot

Þá er einnig dregið fram mögulegt vanhæfi trúnaðarmanns og spurt oftar en einu sinni hvort það sé hægt að bera fram vantrauststillögu á stjórnarmeðlim ÍFF en þetta er aðeins brotabrot af spurningum flugfreyja og flugþjóna áður en lokað var fyrir kerfið.

Eðlilegt að eiga samtal um kaup og kjör

Fréttablaðið hafði samband við Play fyrir áramót vegna óánægju starfsmanna og fékk þau svör í byrjun árs að það sé eðlilegt samtal í öllum fyrirtækjum að ræða kaup og kjör. „Varðandi óánægju með kjör og starfsskilyrði er eðli málsins samkvæmt alltaf hópur sem vill breytingar á kjörum og hafa einstaklingar í þeim hópi tjáð stjórnendum um þá óánægju. Það að ræða kaup og kjör er eðlilegt samtal í öllum fyrirtækjum og stjórnendur PLAY eru alltaf í góðu samtali við starfsfólk og stéttarfélög þeirra eins og eðlilegt er. Við viljum alltaf reyna að koma til móts við starfsfólk og það hefur margt verið gert til þess að bæta kjör og eins að sjá til þess að vinnustaðurinn sé eins góður og kostur er.“

Svar flugfélagsins við fyrirspurn Fréttablaðsins í heild sinni má sjá hér að neðan.

Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play.
Ljósmynd/Play

Svar Play:

„Það er ekki hægt að tala um mikinn fjölda í þessu samhengi en nokkrir flugliðar hafa vissulega sagt starfi sínu lausu á síðustu vikum. Þeir flugliðar gáfu upp ýmsar ástæður, t.d eru sumir á leið í nám, aðrir sem ákváðu að hverfa til annarra starfa og svo þeir sem eru að hefja störf hjá öðrum flugfélögum. Það er ekki óeðlilegt að það sé starfsmannavelta á svona stórum og vaxandi vinnustað en um 350 manns vinna nú hjá félaginu.

Varðandi óánægju með kjör og starfsskilyrði er eðli málsins samkvæmt alltaf hópur sem vill breytingar á kjörum og hafa einstaklingar í þeim hópi tjáð stjórnendum um þá óánægju. Það að ræða kaup og kjör er eðlilegt samtal í öllum fyrirtækjum og stjórnendur PLAY eru alltaf í góðu samtali við starfsfólk og stéttarfélög þeirra eins og eðlilegt er. Við viljum alltaf reyna að koma til móts við starfsfólk og það hefur margt verið gert til þess að bæta kjör og eins að sjá til þess að vinnustaðurinn sé eins góður og kostur er. PLAY er nýtt fyrirtæki í miklum vexti en er enn þá er í tapi þó að það horf til  betri vegar á þessu ári, því er ekki mikið svigrúm í launahækkanir eða breytingar á kjörum. Til að geta boðið lægstu verðin sem er einmitt það sem PLAY sem lággjaldaflugfélag gengur út á þarf allur kostnaður að samræmast þeirri stefnu.  

Við teljum að þau kjör sem við bjóðum okkar starfsfólki séu fullkomlega samkeppnishæf við það sem gerist á markaðinum. Starfsfólk PLAY er frábært og hefur staðið sig mjög vel og við reynum svo sannarlega að sjá til þess að PLAY sé góður og eftirsóttur vinnustaður en vissulega verður hver einstaklingur að vega það og meta hvort að vinnustaðurinn og þau kjör sem bjóðast, og eru ljós við ráðningu, henti hverjum og einum.

Þessa dagana stendur yfir ráðningar og þjálfunarferli en PLAY er að bæta við sig um 200 starfsmönnum vegna stækkunar flugvélaflota og leiðarkerfis í vor. Vel yfir 3000 umsóknir bárust og það er er ótrúlega gaman að sjá hve margir sækja um og vilja starfa hjá PLAY og við munum nota þá hvatningu til þess að halda áfram að gera PLAY að frábærum vinnustað.“

Bætt við eftir að fréttin er birt:

Það sem mér finnst rétt er að komi fram:

-Þetta eru ekki hátt í 40 flugliðar heldur 20 fastráðnir flugliðar sem hafa sagt starfi sínu lausu á síðustu 4-5 mánuðum.

-Engin fær 289 þusund i utborgaðar tekjur, flugliðar fá 3 launaseðla um hver mánaðarmót og þú hefur fengið einn í hendurnar.

Fréttin hefur verið uppfærð eftir að viðbrögð bárust frá Play við fréttinni klukkan 11:11 þann 18.11.2023.