Alls bíða 55 börn, sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd, eftir að hefja grunnskólagöngu hér á landi. Þetta kemur fram í svari Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, við fyrirspurn frá Eydísi Ásbjörnsdóttur á Alþingi í gær.

Börn sem hingað koma hefja ekki skólagöngu fyrr en þau hafa lokið heilbrigðisskoðun og því má skipta hópnum í tvennt, annars vegar eru þau sem bíða eftir heilbrigðisskoðun og hafa því ekki hafið skólagöngu og hins vegar þau sem hafa lokið heilbrigðisskoðun og bíða eftir að hefja grunnskólagöngu.

Alls eru 22 börn sem hafa lokið heilbrigðisskoðun en ekki hafið skólagöngu. Þau tvö börn sem hafa beðið lengst eftir að hefja skólagöngu hafa beðið síðan í október, eða þrjá mánuði. Hin 20 hafa beðið frá því í nóvember eftir að hefja almenna skólagöngu.

Lengsti tími sem ráðuneyti Ásmundar veit um að barn hafi beðið eftir skólagöngu er frá apríl 2022 til október 2022 eða hálft ár. Í svarinu segir að almennt sé miðað við að börn sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd séu komin í almennan skóla eða annað úrræði til menntunar innan fjögurra vikna frá því að þau hófu að fá þjónustu Vinnumálastofnunar.