Tugir fanga hafa dáið að undanförnu úr hungri í fangelsum á Haítí. Minnst átta dóu á einu fangelsi sem hefur glímt við alvarlegan matarskort síðastliðna tvo mánuði en fjöldi svipaðra dauðsfalla hafa þegar átt sér stað á árinu.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna segir 54 dauðsföll vegna næringarskorts skráð í fangelsum Haítí frá janúar til apríl síðastliðinn. Auk matarskorts spilar þrúgandi hiti undanfarinnar viku inn í nýleg dauðsföll.
Fangelsi landsins eru mjög þéttsetin og erfiðlega hefur gengið að tryggja mat, vatn og lyf til fanga. Talsmenn fangelsiskerfisins kenna skorti á fjármagni um stöðuna. Næstum þrefalt fleiri dvelja nú í fangelsum landsins en pláss gerir ráð fyrir.
Sársaukafullur dauði
Undanfarna mánuði hafa fangar þurft að reiða sig á fjölskyldu og vini fyrir mat og vatn en lögum samkvæmt eiga fangelsin að skaffa föngum vatn og tvær máltíðir á dag. Þar að auki gerir ofbeldi og skipulögð glæpastarfsemi aðstandendum í mörgum tilfellum erfitt fyrir að koma mati til fangelsanna.
„Þetta er sársaukafullur dauði,“ segir Michelle Karshan í samtali við The Guardian. Hún er ein stofnenda góðgerðasamtakanna Health Through Walls sem veitir föngum heilbrigðisaðstoð.
„Líffærin hætta að virka eitt af öðru. Það er skelfilegur hlutur til að horfa upp á,“ segir Michelle. Hún segir nauðsynlegt að fangelsiskerfið og ríkisstjórnin axli ábyrgð.