Neytendastofa hefur fengið tugi ábendinga á síðustu dögum um verslanir sem sagðar eru hafa haft rangt við í kringum afsláttardaga á borð við Svartan föstudag, Dag einhleypra og Stafrænan mánudag.

„Við höfum fengið tugi ábendinga þess efnis að verslanir hafa hækkað verð áður en það er lækkað aftur í kringum sérstaka afsláttardaga og einnig almennar útsölur,“ segir Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu.

Ábendingarnir segir Þórunn berast í kringum útsölur og afsláttardagana Svartan föstudag, Dag einhleypra og Stafrænan mánudag sem hafa skotið föstum rótum hérlendis síðastliðin ár. Hún segir sektir geta verið tíu milljónir króna að hámarki en fyrir brot líkt og hér er nefnt sé sektað um 50 til 100 þúsund krónur. „Það er fjöldi og eðli brota sem ákvarðar upphæð sektarinnar,“ útskýrir hún.

Aðspurð segir Þórunn mál stærri verslana sem oftar séu með afslætti koma inn á borð til Neytendastofu. Ekkert eitt fyrirtæki standi upp úr. Hún hvetur fólk til að senda ábendingar á Neytendastofu ef það verður þess vart að slíkt brot eigi sér stað. Málin verði þá tekin til skoðunar.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segist aldrei verja óheiðarlega viðskiptahætti af því tagi sem hér um ræðir. „Við fylgjumst ekkert sérstaklega með því og það er ekki okkar hlutverk,“ segir hann. Þá bendir hann á að þó að Neytendasamtökunum berist ellefu kvartanir eftir Dag einhleypra, líkt og Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna sagði í Kastljósi í síðustu viku, geti það ekki talist mikið.

„Það getur ekki talist mikið í þessum tugþúsundum viðskipta sem eiga sér stað þessa daga, þar sem slíkar kvartanir berast alltaf í kringum þessa stóru daga og útsölur,“ segir Andrés.