Í nýrri skýrslu samtaka gegn kjarnorkuvopnum (e. International Campaign to Abolish Nuclear Weapons) kemur fram að þrátt fyrir heimsfaraldurinn og fjárhagsleg áhrif hans var meira fjármagni eytt í kjarnorkuvopn árið 2020 en árið áður.

Á síðasta ári var 72,6 milljörðum dala eytt í kjarnorkuvopn, sem er 1,4 milljörðum meira en árið 2019. Rúmlega helming þeirrar upphæðar má rekja til Bandaríkjanna sem eyddu 37,4 milljörðum í kjarnorkuvopn á síðasta ári.

Þetta þýðir að 137 þúsund dollurum var eytt á mínútu í kjarnorkuvopn eða 16,5 milljónum íslenskra króna.

Samtökin, sem fengu friðarverðlaun Nóbels árið 2017, fylgjast með þróun kjarnorkuvopna á heimsvísu og vöktu athygli á því að „á sama tíma og spítalar eru fullir og lyfjaskortur víðs vegar í heiminum eyddu níu lönd rúmlega 72 milljörðum dala í gereyðingarvopn“.