Tryggvi Rúnar Brynjars­son, barna­barn og nafni Tryggva Rúnars Leifs­sonar, eins af sak­borningunum í Guð­mundar-og Geir­finns­málinu, segir að því fari fjarri að allar hliðar sögunnar hafi verið leiddar til lykta með endur­upp­töku­ferli síðustu ára og er harðorður í garð Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra.

Tryggvi tjáir sig í langri Face­book færslu um nýjustu vendingar í málinu en eins og Frétta­blaðið greindi frá á dögunum hafnaði ríkið öllum bóta­kröfum Guð­jóns Skarp­héðins­sonar, sem sýknaður var af aðild að hvarfi Geir­finns Einars­sonar í fyrra þegar sak­fellingar­dómi Hæsta­réttar frá 1980 var snúið við.

Katrín þjóni kerfinu

„Katrín Jakobs­dóttir þykist hafa gildi og marka stefnu ríkisins, en keppist í reynd við að þjóna kerfi sem brýtur á, lítil­lækkar og þaggar niður í þeim sem minnstar varnir hafa gegn of­ríki hins opin­bera,“ skrifar Tryggvi í upp­hafi pistilsins.

Hann segist árangurs­lítið hafa reynt að vekja at­hygli á því að því fari fjarri að allar hliðar sögunnar hafi verið leiddar til lykta með endur­upp­töku­ferli síðustu ára.

„Satt að segja höfum við, sem ekki höfum getað lokað augunum, engan frið fengið fyrir níði em­bættis­mannanna, sem mark­visst hafa leitast við að klína skömminni og á­byrgðinni á því hvernig fór - ef ekki hinni laga­legu sekt - á hina fótum troðnu ein­stak­linga sem dæmdir voru í málunum,“ skrifar Tryggvi.

Rak rangan dóm til per­sónu­legra veik­leika Tryggva

„Þegar settur ríkis­sak­sóknari, Davíð Þór Björg­vins­son, krafðist sýknu í fyrra til­tók hann sem á­stæðurnar fyrir röngum dómi í til­felli afa míns hans meintu per­sónu­legu veik­leika: lé­lega greind, sögu á­fengis- og vímu­efna­mis­notkunar, inn­byggða undir­lægju­semi gagn­vart rann­sak­endum, o.s.frv. - mein­gallaðar at­huganir sem finna má í ein­hverri geð­skýrslu sem var fram­kvæmd þegar afi minn hafði setið í ein­angrun í hálft ár.

Davíð Þór vildi meina að þessir sál­rænu þættir hafi legið að baki játningu afa míns, en ekki sví­virði­leg og endur­tekin brot opin­berra starfs­manna á réttindum hans,“ skrifar Tryggvi.

Greinar­gerð setts ríkis­lög­manns, Andra Árna­sonar, sé beint fram­hald af þol­enda­skömmun og þöggun kerfisins á því of­beldi sem ís­lenska ríkið beri á­byrgð á og skyldu til að bæta upp.

„Því miður tók fyrrum lög­maður okkar fjöl­skyldunnar, Lúð­vík Berg­vins­son, virkan þátt í þessu ráða­bruggi verj­enda kerfisins og vísaði alltaf til þess, þegar ég kvartaði, að þetta væri nauð­syn­legur liður í stærri strategíu til þess að fá málið endur­upp­tekið og dómnum hnekkt. Ég hef skrifað um þetta greinar og haldið fyrir­lestur sem fólk getur hlustað á hér,“ skrifar Tryggvi.

And­styggi­leg að­för að Guð­jóni ætti ekki að koma á ó­vart

Hann segir að and­styggi­leg að­för kerfisins að Guð­jóni ætti því ekki að koma sér­stak­lega á ó­vart.

„En Katrín Jakobs­dóttir hefði getað af­stýrt þessari nýjustu árás. Hún hefði getað sett á lag­girnar rann­sóknar­nefnd til að gera upp það sem enn er ó­upp­gert í málinu - til þess m.a. að komast að því hver beri á­byrgð á hverju - og hún hefði getað hafnað því að ríkið tæki þátt í þol­enda­skömmun og þöggun.“

Hún hafi hins vegar að gera það ekki, heldur ljá her­ferð kerfisins sína rödd og and­lit til þess að al­menningur haldi mánuðum saman að hér sé allt í á­sættan­legu horfi, „þrátt fyrir að við höfum lengi verið virki­lega ó­sátt með að­gerða- og vilja­leysi ríkis­stjórnarinnar og ekki legið á þeirri skoðun.“

„Má Katrín skammast sín fyrir sinn þátt í þessari sögu. Hins vegar má ekki eigna henni sjálfri eða þessari ríkis­stjórn það níð sem birtist í greinar­gerð setts ríkis­lög­manns. Í þessu stærra kerfis­læga sam­hengi eru ráð­herrarnir bara undir­lægjur.“