Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir að verða leystur frá embætti frá og með 1.maí næstkomandi.

Þetta tilkynnti Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, við upphaf þingfundar.

Undirnefnd skipuð um tilnefningu í embættið

„Forseti vill nota þetta tækifæri til að þakka Tryggva Gunnarssyni fyrir störf hans í embætti umboðsmanns Alþingis en hann hefur gegnt í síðastliðna rúma tvo áratugi,“ sagði Steingrímur við upphaf þingfundar rétt í þessu.

Það er hlutverk forsætisnefndar Alþingis að gera tillögu til Alþingis um einstakling í embætti umboðsmanns, en Alþingi kýs umboðsmann til fimm ára í senn. Í tilkynningu Steingríms á þingfundi kom fram að forsætisnefnd hefur þegar hafið vinnu við það ferli. Þriggja manna undirnefnd hefur verið skipuð sem mun annast undirbúning tillögugerðar til forsætisnefndar um tilnefningu einstaklings.

Undirnefnd forsætisnefndar mun jafnframt á næstu dögum skipa nefnd þriggja sérfræðinga sem verða undirnefndinni og forsætisnefnd til ráðgjafar.

Tryggvi Gunnarsson er fæddur 10. júní 1955 og verður því sextíu og sex ára í sumar. Hann hefur sem fyrr segir sinnt embætti umboðsmanns í rúma tvo áratugi.

Hann var í tímabundu leyfi frá störfum frá 2009 til 2011 en hann átti sæti í rannsóknarnefnd Alþingis sem skipuð var haustið 2008 til að rannsaka aðdraganda og orsakir hrunsins. Nefndin skilaði skýrslu sinni í apríl 2010.