Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist ekki verða vör við að stuðningur kjósenda Vinstri grænna hafi undanfarið aukist við veru Íslands í NATO þótt slíkt megi merkja í nýlegri könnun Prósent. Þetta segir hún í viðtali á Fréttavaktinni í kvöld. Eins segir hún að tryggja þurfi með lögum orku sem nýtist almenningi og almannafyrirtækjum umfram aðra.

Alþingi samþykkti þjóðaröryggisstefnuna

Stuðningur við bandalagið sé bundið í þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt var á Alþingi 2016 og er í stjórnarsáttmálanum. Katrín leggur áherslu á að bandalagið standi líka fyrir mörgu öðru en hernaði. Hún sér ekki fyrir sér að stefna VG muni breytast gagnvart NATO sem flokkurinn hefur lengi haft í sínum samþykktum að gagna úr bandalaginu. „Ég get ekki sagt að ég finni fyrir slíkri breytingu,“ segir Katrín. „Ég get ekki sagt að ég hafi fengið áskorun einhverra félaga um stefnubreytingu.“

„Við horfum á þetta út frá þeim grunni sem er friðarstefnan og ég held einmitt að þegar við sjáum núna stríð í Evrópu og hversu hræðilegt það er.“

„Það sýnir hvað friður er undirstaða fyrir allt annað,“ segir Katrín.

Aðspurð hvort afstaða hennar til veru Íslands í NATO myndi breytast skyldi það blanda sér í hernaðarátökin í Úkraínu segir hún slíkt ekki koma til þar sem landið sé ekki hluti af bandalaginu og því megi NATO ekki blanda sér sem slík í átökin.

Forgangsraða orkunni innanlands

Formaður framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson sagði á flokksþingi um helgina að það þyrfti að virkja meira hér á landi til að tryggja orkusjálfstæði landsins.

Katrín telur að fyrst og fremst eigi að forgangsraða notendahópum orkunnar og gera það formlega – slíkt hafi ekki verið gert og á að laga t.d. með lögum.

„Í mínum huga er það alveg skýrt, við eigum að forgangsraða orkunni til innlendra orkuskipta, það eru margir aðrir sem vilja tala hér um útflutning, jafnvel stórfelldan á orku og ég held að nýleg stöðuskýrsla sýni að orkan er ekki ótæmandi auðlind og við eigum líka að svara því skýrt og móta tillögur þar að lútandi, hvernig á til að mynda innheimta gjald af þessari sameiginlegu auðlind sem er orkan,“ segir Katrín og líka þetta:

„Og það er eitt af því sem ég hef lengi tala fyri rað við setjum skýrari ramma þegar ekki er um að ræða fyrirtæki í almannaeigu, eins og til að mynda Landsvirkjun - sem á að vera í almannaeigu – og það sé algerlega skýrt hver sá rammi er.“

Sá rammi sé ekki til staðar, segir Katrín en lögð verði drög að því á næstunni. „Það er enginn aðili sem til að mynda sem ber ábyrgð á því að tryggja raforku til almennings,“ segir Katrín að hafa komið fram og það þurfi að vera skýrt í lögum sem nú sé ekki.