Nýverið voru á þingi samþykkt ný lög um samskiptaráðgjafa í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Markmið laganna er að tryggja að íþrótta- og æskulýðsstarf sé öruggt umhverfi þar sem börn, unglingar og fullorðnir, óháð kyni eða stöðu að öðru leyti, geta stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða réttar síns vegna kynferðislegrar áreitni og ofbeldi sem þar koma upp án ótta við afleiðingarnar.
Samkvæmt þeim mun ráðherra setja á fót starf samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs til fimm ára í senn. Segir í lögunum að samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs skuli hafa háskólamenntun og þekkingu sem nýtist í starfi.
Frumvarpið var lagt fram í haust í kjölfar vinnu hóps sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði í kjölfar #églíka-yfirlýsingar íþróttakvenna haustið árið 2018. Starf samskiptaráðgjafa var meðal tillagna hópsins.
„Það er kappsmál okkar að tryggja öryggi iðkenda í íþrótta- og æskulýðsstarfi og sjá til þess að umgjörð og aðstæður á þeim vettvangi séu sem bestar fyrir þátttakendur og starfsfólk. Þessi nýju lög eru mikið framfaraspor, með þeim tryggjum við skýrari ferla, betri upplýsingagjöf og hlutleysi í málum sem oft geta verið viðkvæm og flókin. Með þessum lögum sendum við jafnframt skýr skilaboð um að áreitni og ofbeldi sé ekki liðið íþrótta- og æskulýðsstarfi. Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem komu að þessu máli og lögðu því lið,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, í tilkynningu sem birt var á heimasíðu ráðuneytis hennar fyrr í dag.
Lögin taka gildi 1. ágúst á þessu ári.