Banda­ríska al­ríkis­lög­reglan var meðal annars að leita að trúnaðar­gögnum um kjarn­orku­vopn Banda­ríkjanna þegar alríkislög­reglan gerði hús­leit á heimili Trumps, Mar-a-Lago í Flórída í vikunni. Þetta herma heimildir Was­hington Post.

Fyrr í vikunni var greint frá því að hús­leitin tengdist opin­berum skjölum úr for­seta­tíð Trumps sem hann hafði tekið heim til sín úr Hvíta húsinu í leyfis­leysi en ekki var gefið út um hvernig skjöl væri að ræða.

Sam­kvæmt The New York Times gaf Merrick Garland, dóms­mála­ráð­herra Banda­ríkjanna, heimild fyrir hús­leitinni áður en hún var framkvæmd.

Garland segir jafn­framt í yfirlýsingu til fjölmiðla að dóms­mála­ráðu­neytið hefur leitað til dóm­stóla í Flórída til að fá leyfi til að opin­bera hús­leitar­heimildina í kjölfar þess að Trump ákvað að tjá sig um málið á sam­fé­lags­miðlum.

Mar-a-Lago heimili Trump í Palm Beach Flórída.
Fréttablaðið/Getty

Að mati ráðu­neytisins er það hags­muna­mál að al­menningu fái að vita á hvaða grund­velli hús­leitin var fram­kvæmd.

Fjöl­margir þing­menn úr röðum Repúblikana hafa gagn­rýnt hús­leitina harð­lega og á meðan þing­menn Demó­krata voru byrjaðir að fagna henni opin­ber­lega áður en vitað var á grund­velli hún var gerð.

Stuðnings­menn fyrr­verandi for­setans eru einnig bál­reiðir vegna hús­leitarinnar og voru mót­mælendur mættir til að mót­mæla al­ríkis­lög­reglunni á meðan á leitinni stóð.

Garland segir að hann á­kvað að tjá sig um málið þar sem Trump var sjálfur búinn að tjá sig og biðja um að hús­leitar­heimildin yrði gerð opin­ber.

Seint í gær­kvöldi sagði Trump að hann muni ekki standa í vegi fyrir því að heimildin verði gerð opinber.

Merrick Garland, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, ræddi við fjölmiðla í gær.
Fréttablaðið/Getty